146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum sem nær allar eiga það sammerkt að innihalda tilteknar forsendur sem standa að baki frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017. Efnisatriði frumvarpsins eru af margvíslegum toga og hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta.

Fyrst eru barnabætur og vaxtabætur og ég ætla að byrja á barnabótakerfinu. Hér er annars vegar lögð til 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta og hins vegar 12,5% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkum sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2017. Hér er bæði horft til verðlags- og launaforsendna fjárlagafrumvarpsins. Sé miðað við þær forsendur munu útgjöld vegna barnabóta verða þau sömu og gert var ráð fyrir í fjármálaáætluninni sem samþykkt var í síðastliðnum ágústmánuði, þ.e. 10,7 milljarðar kr.

Varðandi vaxtabótakerfið er um að ræða framlengingu á bráðabirgðaákvæði um breyttar útreikningsreglur vaxtabóta sem lögfestar voru í lok árs 2010. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár en hafa síðan verið framlengdar óbreyttar ár frá ári. Verði þessar útreikningsreglur ekki framlengdar nú taka við eldri reglur frá og með næstu áramótum með þeim afleiðingum að stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifist á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag. Á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem hafa notið hámarksbóta, þ.e. tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur. Það má segja að þessu bráðabirgðaákvæði sé ætlað að tryggja að vaxtabæturnar skili sér í ríkari mæli til þeirra sem eru tekju- og eignaminni og þess vegna er lagt til að þetta ákvæði til bráðabirgða verði enn framlengt.

Þetta er gert í ljósi þess að enn er verið að vinna í heildarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda á ýmsum sviðum, svo sem vaxtabótakerfi og húsaleigubótakerfi. Séreignarsparnaður og fyrsta íbúð er annað úrræði og félagsleg aðstoð. Af ýmsum ástæðum og meðal annars þessum er lagt til að útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengdar eitt ár í viðbót. Þannig verða þær þær sömu á árinu 2017 og þær hafa verið á yfirstandandi ári ef frá er talin 12,5% hækkun á eignarmörkum þeirra.

Á grundvelli þeirra forsendna sem hér hafa verið raktar er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 6,1 milljarði kr. á árinu 2017 sem er sama fjárhæð og fram kemur í fjármálaáætluninni.

Þá ætla ég að víkja að verðlagsuppfærslu krónutölugjalda. Í frumvarpinu er að finna tillögur um 2,2% hækkun á hinum svokölluðu krónutölugjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins, auk 2,5% sérstakrar hækkunar þeirra, 4,7% verður þetta alls. Þessi umframhækkun er liður í því að slá á þau þensluáhrif sem látið hafa á sér kræla undanfarna mánuði. Hér er um að ræða almennt og sérstakt bensíngjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald, gjald af áfengi og tóbaki og kolefnisgjald af eldsneyti.

Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði samanlagt 3,2 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

Í þriðja lagi vil ég fara hér yfir lagfæringu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hér er einungis um að ræða leiðréttingu á villu sem gerði að verkum að 4. mgr. 11. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda féll að ósekju brott. Upphafleg hugmynd efnahags- og viðskiptanefndar var sú að leggja til brottfall 4. mgr. 11. gr. laganna um virðisaukaskatt en við útfærslu málsins tók tillagan fyrir misgáning til breytinga á staðgreiðslulögunum. Til að leiðrétta framangreint er lagt til að 4. mgr. 11. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda verði tekin óbreytt upp í lögin að nýju en 4. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt verði felld brott eins og upphaflega var ætlunin.

Í fjórða lagi eru það mörk virðisaukaskattsskyldrar veltu við sölu á rafrænt afhentri þjónustu. Í lögum um virðisaukaskatt er kveðið á um að þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir 1 millj. kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst séu undanþegnir virðisaukaskattsskyldu. Síðastliðið vor samþykkti Alþingi þá breytingu á ákvæðinu að framangreind veltumörk hækki 1. janúar 2017 úr 1 millj. kr. í 2 millj. kr. auk þess sem fjárhæðarmörk uppgjörstímabila samkvæmt lögunum munu frá sama tíma hækka um 1 millj. kr. Til að samræmis sé gætt er lagt til að veltumörk laganna, sem eiga við um sölu rafrænt afhentrar þjónustu, verði alfarið látin fylgja veltumörkum undanþeginnar virðisaukaskattsskyldrar veltu frá og með 1. janúar 2017. Þetta er hugsað til samræmis, til að gæta að samræmi milli þessarar þjónustu og hinnar.

Í fimmta lagi vil ég hér fara yfir virðisaukaskattsívilnun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða sem hefur verið að finna í lögum. Hér er lagt til að tímabundin heimild til að fella niður virðisaukaskatt að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði framlengd um eitt ár. Upphaflega var ákvæðinu ætlað að gilda út árið 2013 en frá því ári hefur gildistíminn verið framlengdur um eitt ár í senn. Hefur það verið gert til að styrkja áfram samkeppnishæfni umræddra ökutækja gagnvart hefðbundnum bensín- og dísilknúnum ökutækjum með það að markmiði að efla og flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum.

Í bráðabirgðaákvæðinu er kveðið á um tilteknar fjárhæðir virðisaukaskatts sem tollstjóra er heimilað að fella niður við tollafgreiðslu umræddra bifreiða. Fjárhæðirnar nema 25,5% af 6 millj. kr. skattskyldri veltu í tilviki rafmagns- og vetnisbifreiða og 4 millj. kr. veltu í tilviki tengiltvinnbifreiða. Þann 1. janúar 2015 lækkaði almennt þrep virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% og er því lagt til að fjárhæðum bráðabirgðaákvæðisins verði breytt til samræmis við það.

Í sjötta lagi vil ég ræða hér um hækkun gistináttaskatts. Í frumvarpinu er lögð til þreföldun á fjárhæð gistináttaskatts sem hækkar þannig úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu frá 1. september 2017. Í fjármálaáætluninni frá því í ágúst var miðað við að breytingin ætti sér stað í ársbyrjun 2017 en í ljósi þess hversu skammur tími er nú til stefnu þótti rétt að seinka gildistökunni til 1. september, fyrst og fremst til þess að taka tilliti til þeirra sem breytingin snertir helst. Tekjuáhrif að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt eru áætluð um 300 millj. kr. á árinu 2017 en 1,2 milljarðar kr. á árinu 2018.

Í sjöunda lagi er að finna í frumvarpinu breytingar sem varða gjaldskrár vegna kostnaðar við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Hér er um að ræða breytingar á gjaldhlutföllum eftirlitsgjalds og ýmsum lágmarks- og fastagjöldum sem lögð eru á og innheimt af Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Breytingarnar endurspegla álagt eftirlitsgjald að fjárhæð 2.161,8 millj. kr., tæpir 2,2 milljarðar. Gert er ráð fyrir að heildargjöld verði 2.225,8 millj. kr. og aðrar tekjur nemi 64 millj. kr. Jafnframt er lagt til að leiðrétt verði tilvísun í lögunum til viðeigandi málsgreina, auk þess sem lagðar eru til breytingar á röð málsgreina og millivísunum í lögunum vegna gildistökuákvæða í öðrum lögum, sem sagt lögunum um fasteignalán til neytenda þann 1. apríl 2017.

Í áttunda lagi er fjallað hér um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Lagt er til að gjald til umboðsmanns skuldara verði rúm 0,03%, nákvæmlega 0,03201%. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar á árinu 2017, en í lögunum er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Innheimtar tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 1.024 millj. kr. á árinu 2017.

Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra er sömuleiðis í frumvarpinu. Þar er lögð til 4,7% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2017, auk sérstakrar 2,5% hækkunar. Samkvæmt því verður gjaldið 10.956 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2017 vegna tekna ársins 2016.

Þá er komið að rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttöku heimilismanna. Gert er ráð fyrir að bætt verði nýju ákvæði til bráðabirgða við lög um málefni aldraðra. Er það gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VII verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2017.

Þá er komið að samspili örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Í frumvarpinu er lögð til framlenging á ákvæði til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á næsta ári.

Framlag til þjóðkirkjunnar og Kristnisjóðs er hér í tólfta lagi. Þá er í frumvarpinu lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2017 gagnvart þjóðkirkjunni, samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, muni hækka um 113,4 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2016. Innifalið í hækkuninni eru samtals 21 millj. kr. stofnkostnaðarframlög til Skálholtsstaðar, Hallgrímskirkju, Hóladómkirkju og Dómkirkjunnar í Reykjavík sem ekki er hluti af fyrrgreindu samkomulagi. Jafnframt er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs hækki um 1,9 millj. kr. á árinu 2017.

Gert er ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 898 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 920 kr. fyrir árið 2017. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2016, með breytingu á lögum um sóknargjöld, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda.

Þá er komið að gjaldskyldu vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Gert er ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði lækkað úr 1.043 kr. í 968 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Gert er ráð fyrir að sú breyting muni hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Úrvinnslugjaldi er ætlað að standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar. Þá á gjaldið að standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Fjárhæð úrvinnslugjalds tekur mið af áætlun um kostnað við úrvinnslu úrgangs. Vörum sem falla undir lögin er skipt í fjárhagslega sjálfstæða flokka og skal tekjum hvers flokks eingöngu varið til að mæta gjöldum þess flokks. Úrvinnslugjald rennur í Úrvinnslusjóð sem sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á úrvinnslugjaldi vegna einnota burðarpoka, olíuvara, lífrænna leysiefna, málningar, blýsýrurafgeyma, vara í ljósmyndaiðnaði, hjólbarða og raf- og rafeindatækja.

Þá er komið að niðurfellingu búnaðargjalds og breytingu á lögum um Bjargráðasjóð. Bændasamtök Íslands, sem teljast til frjálsra félagasamtaka, hafa ákveðið að taka upp almennt félagsgjald sem kemur þá a.m.k. að hluta í stað búnaðargjalds. Þar með eru ekki lengur fyrir hendi forsendur fyrir því að ríkið annist innheimtu og álagningu gjaldsins. Því er lagt til að lög um búnaðargjald verði felld brott frá og með 1. janúar 2017. Þar sem lögin gera hins vegar ráð fyrir að framtal og álagning vegna tekjuársins 2016 eigi sér stað á árinu 2017 er gert ráð fyrir að lögin haldi áfram gildi sínu að því leyti sem þau kveða á um framtal og álagningu 2017, vegna tekjuársins 2016, og vegna endurálagningar eldri gjaldára.

Þar sem búnaðargjald hefur að hluta runnið til búnaðardeildar Bjargráðasjóðs er nauðsynlegt að gera breytingar á ákvæðum laga um sjóðinn. Breytingunum er ætlað að endurspegla brottfall búnaðargjalds. Búnaðardeild Bjargráðasjóðs á eignir vegna tekna deildarinnar af búnaðargjaldi frá fyrri tíð. Gert er ráð fyrir að þeim eignum verði ráðstafað til Bændasamtaka Íslands í samhengi við þær breytingar sem verða á eignarhaldi sjóðsins. Eignirnar nema rúmum 288 millj. kr.

Gert er ráð fyrir því að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 16.400 kr. í 16.800 kr., þ.e. um sem nemur 2,2%, vegna almennra verðlagsbreytinga milli áranna 2016 og 2017. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 90 millj. kr. árlega.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir 115 millj. kr. viðbótarframlagi til Þjóðskrár Íslands á árinu 2017 til að mæta kostnaði stofnunarinnar við innkaup á vegabréfum og endurgerð framleiðslukerfis fyrir vegabréf. Til að mæta viðbótarframlaginu er lagt til að gjald fyrir útgáfu vegabréfa verði hækkað. Umfang hækkunarinnar byggist á áætlun um tekjur af framleiðslu vegabréfa árið 2017. Verði tillagan samþykkt mun almennt gjald fyrir 18–66 ára hækka úr 10.250 kr. í 12.300 kr.

Í lögum um fjársýsluskatt er að finna ákvæði um gjalddaga ógreidds fjársýsluskatts og fjársýsluskatts utan staðgreiðslu í tilviki lögaðila. Rétt þykir að kveðið verði á um að gjalddagi ógreidds fjársýsluskatts og fjársýsluskatts utan staðgreiðslu í tilviki einstaklinga verði 1. júlí ár hvert og eindagi mánuði síðar.

Framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er hér næst. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er tekið fram að framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skuli reikna af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Samkvæmt lögum um opinber fjármál eru tryggingagjöld ekki lengur hluti af skatttekjum ríkissjóðs. Til að taka af allan vafa þykir því nauðsynlegt að leggja til þá lagabreytingu að auk þess að reikna framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs skuli það einnig reiknað af innheimtum tryggingagjöldum ríkissjóðs.

Næst vil ég ræða frávik frá þeirri skyldu ráðherra að leggja fram áætlun um fjárveitingar næstu tveggja ára vegna fylgirits með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017. Hér er um að ræða atriði sem ég vék að í framsöguræðu minni með fjárlagafrumvarpi næsta árs og er lagt til í þessu frumvarpi að við ákvæði til bráðabirgða í lögum um opinber fjármál verði bætt nýrri málsgrein. Samkvæmt lögunum skal ráðherra meðal annars leggja fram áætlun um fjárveitingar, sem er að finna í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu, til næstu tveggja ára og skal það birtast í fylgiritinu með frumvarpi til fjárlaga. Frá gildistöku laganna um opinber fjármál þann 1. janúar sl. hefur ráðuneytum ekki gefist ráðrúm til að setja fram nákvæmar áætlanir fyrir öll verkefni og stofnanir eins og krafist er í ákvæðinu. Því er gert ráð fyrir að veitt verði undanþága frá þeirri skyldu ráðherra að leggja fram áætlun um fjárveitingar næstu tveggja ára vegna fylgirits með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017. Slík áætlun verður því birt í fyrsta sinni í fylgiriti með frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018.

Ég hef hér fyrst og fremst fært þau rök fyrir því að þessi undanþága verði veitt með bráðabirgðaákvæðinu að stjórnkerfinu hefur reynst erfitt að uppfylla þá skyldu að deila fjárheimildum niður þrjú ár fram í tímann. Ég myndi gjarnan vilja bæta við þeim viðbótarrökum að ég held að okkur veiti ekkert af því — þetta er fyrsta árið sem við erum að framkvæma þessa breytingu með fjárlagafrumvarp á nýjum grunni, þ.e. þar sem framsetningin er öll á grundvelli málefnasviða, og við erum í fyrsta sinn að leggja hér fram fylgiritið með fjárlagafrumvarpinu þar sem ráðuneytin hafa brotið fjárveitingar einstakra málefnasviða niður á stofnanir — af reynslu fyrsta ársins til að vinna síðan í framhaldinu þriggja ára áætlun. Það eru mörg atriði í fylgiritinu sem ég tel að við öll eigum eftir að glöggva okkur betur á þegar kemur að framkvæmdinni. Ég nefni sem dæmi heimildir ráðherra til að gera ráðstafanir innan fjárlagaársins til breytinga á fjárveitingum. Þær eru allrúmar en þurfa að fara eftir skipulögðu ferli og eru síðan kynntar fyrir fjárlaganefnd. Ég nefni sömuleiðis sem dæmi óskipta liði. Óskiptir liðir geta numið milljörðum í fylgiritinu. Eitt af því sem þingið hlýtur að velta fyrir sér á komandi árum er það hversu stóra óskipta liði menn vilja sjá heilt yfir, hversu mikið svigrúm og sveigjanleika eigi að gefa ráðuneytum til að skipta þeim innan fjárlagaársins niður á stofnanir. Við erum til dæmis með fyrir sjúkrahúsin rúman milljarð í fylgiritinu á óskiptum lið.

Fleira mætti tína til. Varasjóðirnir, hvernig mun sú breyting gagnast okkur? Allt eru þetta atriði sem mæla með því að við fellum okkur við það, eins og ég er hér að mæla fyrir og við leggjum til í þessu frumvarpi, að í fyrsta sinn sem við förum í gegnum þetta ferli veitum við heimild til bráðabirgða fyrir því að fjárveitingar séu ekki brotnar niður þrjú ár fram í tímann.

Þá er komið að því að ræða um fjárhagsleg áhrif frumvarpsins. Eins og ég hef rakið eru tillögur frumvarpsins af margvíslegum toga og hið sama má segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Breytingar á barnabótum og vaxtabótum auka ráðstöfunartekjur og kaupmátt heimila um 1,5 milljarða kr. frá því sem ella hefði orðið en hækkun útvarpsgjalds, gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra og gjalds fyrir vegabréf vegur þar á móti, samtals um 200 millj. kr. Hækkun krónutölugjalda, þ.e. áfengi, tóbak og eldsneyti, mun óhjákvæmilega hafa áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar, þ.e. nálægt 0,2%. Hækkun á gistináttaskatti mun aftur á móti fyrst og fremst hafa áhrif á kaupmátt og þar með eftirspurn erlendra ferðamanna, en áhrif á vísitölu neysluverðs verða þó einhver. Þegar allt er lagt saman verður niðurstaðan sú að áhrif tillagna frumvarpsins verða óveruleg á ráðstöfunartekjur og kaupmátt, en áhrif á verð í einstaka þáttum ferðaþjónustu gætu þó orðið einhver til hækkunar sem gæti dregið úr eftirspurn ferðamanna, ekki síst þegar við bætist styrking krónunnar undanfarin misseri. Þá verða nettóáhrif tillagna á ríkissjóð jákvæð um tæplega 1,5 milljarða kr. Er þá einungis miðað við áhrif umfram venjubundna verðlagsuppfærslu.

Fyrir vinnu efnahags- og viðskiptanefndar er hægt að útvega nánara niðurbrot á áhrifum tillagnanna á afkomu ríkissjóðs á árinu 2017 á viðmiðunarfjárhæðir barnabóta, vaxtabóta, umframhækkun á gjaldskrám, framlengingu ívilnunar vegna rafmagns- og tengiltvinnbifreiða, gistináttaskattinn, umboðsmann skuldara og ýmislegt annað. Þetta er allt til sem efni fyrir nefndina til að skoða og hafa hliðsjón af.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu sögðu að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.