146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka umræðuna um kolefnisgjaldið lengra því að eins og birtist raunar í frumvarpi hæstv. ráðherra skilar markaðurinn með losunarheimildir sem við höfum verið aðilar að ekki þeim árangri sem ætlunin var. Það kemur þeirri sem hér stendur ekki sérstaklega á óvart, en þetta er hins vegar það sem Íslendingar gengust inn á eins og aðrir, þetta var það sem ákveðið var að gera á hinum samevrópska vettvangi. Nú kemur fram róttækt fólk eins og Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og segir: „Markaðurinn virkar ekki og þetta er rétti tíminn til þess að hækka kolefnisgjaldið með róttækum hætti.“ Samkvæmt þeim alþjóðlegu fræðimönnum sem hafa talað um þetta er kolefnisgjaldið á heimsvísu 80% of lágt til þess að hafa áhrif á loftslagsbreytingar.

Ég vil líka segja að þegar við skoðum hvað er í gangi í nágrannalöndunum sjáum við að Norðmenn hafa verið þar fremstir í flokki þegar kemur að kolefnisgjaldi. Þeir geta beinlínis sýnt fram á, því að þeir hafa haft þetta gjald mun lengur en aðrar þjóðir, eða frá byrjun 10. áratugarins, að það má beintengja fjárhæð kolefnisgjaldsins við samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Mig langar að ítreka þá spurningu sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom með til hæstv. ráðherra, hvort ekki sé ástæða til þess að skoða þetta nánar, ekki bara út af loftslagsmarkmiðum heldur veitir ríkissjóði ekki af tekjum til þess að sinna ýmsum verkefnum. Ég held að þetta kalli á heildstæða stefnumótun, það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra, en við þurfum þá að taka mark á því í þeirri stefnumótun hvaða aðgerðir hafa skilað árangri og hverjar ekki. Þegar við skoðum gögnin hlutlægt skilar kolefnisgjaldið langmestum árangri, en það kallar auðvitað á róttæka hækkun. Það má hins vegar útfæra það með tilliti til strjálbýlisins, eins og hæstv. ráðherra bendir réttilega á, þ.e. hægt er að hugsa sér einhverjar útfærslur þannig að róttækari hækkun mundi ekki bitna á þeim (Forseti hringir.) sem eru háðir samgöngutækjum á borð við bíla sem knúnir eru með jarðefnaeldsneyti til þess (Forseti hringir.) að komast á milli staða, sem gildir kannski ekki um okkur hér í þéttbýlinu.