146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað gríðarlega margslungin umræða. Við erum að tala um gjald sem er 6 kr. og erum að tala um að hækka það upp í 6,3. Við höfum séð eldsneytislítrann fara úr 100 kr. í yfir 200 kr. vegna breytinga á heimsmarkaði. Ég man eftir því þegar ég var á dælunni á bensínstöðinni í Garðabæ einu sinni og var að fylla á tankinn og mælirinn stöðvaðist vegna þess að hann gat ekki talið hærra en upp í 10 þús. kr. Þá vorum við bara komin á nýja tíma. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru ýmsir aðrir þættir en það hvort við tökum 6, 7, 10, 12, 13, 14 kr. hér sem geta haft meiri áhrif. Þess vegna legg ég svo mikla áherslu á að við skoðum þetta heildstætt.

Hversu mikið breyttist notkunin á Íslandi áður fyrr við það að verðið fór í yfir 200 kr. á lítrann úr kannski innan við 100 kr.? Hversu mikið breyttist við það? Skoðum það. Þá fáum við kannski einhverja mynd af því hversu mikil verðteygni er hér og hversu mikil áhrif við getum haft á hegðun.

Ég held að ýmsar aðrar aðgerðir séu enn líklegri til þess að skila árangri, samanber það að fólk virðist horfa til þess að þeir hvatar sem felast í því að kaupa sér umhverfisvænan bíl með léttari álögum við innflutning virðast vera að skila sér. En það má svo sem líka segja varðandi þetta gjald að þær breytingar sem við mælum fyrir eru afskaplega takmarkaðar í ljósi þess að eldsneytisverðið hefur lækkað verulega á undanförnum misserum. Vilji menn halda því í þeim hæðum sem gjaldið var þá verða menn að gera sér grein fyrir því að það mun hafa áhrif t.d. á verðlag í landinu. Það mun aftur hafa áhrif á skuldastöðu heimila með verðtryggð lán o.s.frv.

Ég segi enn og aftur: Skoðum þetta heildstætt. Við erum með einhver hæstu verð á eldsneyti til samgangna (Forseti hringir.) á Íslandi sem þekkjast, með því hærra. Við erum á svipuðum slóðum og önnur norræn ríki en á sama tíma eru önnur lönd með alls konar álagningu mun lægri. Ég held að það séu frekar þau sem Christine Lagarde er að vísa til, (Forseti hringir.) þótt hún sé kannski ekki að tala um Venesúela þar sem kostar (Forseti hringir.) innan við 1 dollara að fylla tankinn.