146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það er kannski einmitt meira við hæfi og meira réttnefni að kalla þessa skatta syndaskatta. Köllum skattana réttum nöfnum. Þetta eru ekki skattar til þess að slá á þenslu, ekki ef menn ætla að halda því fram að þeir eigi að afla ríkinu tekna upp á 3,7 milljarða. Ég rak augun í að áfengið veitir tekjur upp á 1,7 milljarða, sem er auðvitað ekkert í stóra samhenginu en þá er ekki rétt að leggja þá til á þeim forsendum að þeir eigi að slá á þenslu. Þá þarf líka að liggja fyrir að teygin eftirspurn sé eftir þessum vöruflokkum, sem ég dreg mjög í efa. Ég tel a.m.k. eðlilegt að menn kalli hlutina réttum nöfnum. Ég hef fullan skilning á því að ríkið þurfi að afla tekna, en þá þurfa skattarnir að verða lagðir á á þeim forsendum en hvorki með tilliti né tilvísun til synda eða þenslu í þjóðfélaginu.