146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram í fjárlagaumræðunni í gær eru um margt góðir tímar í efnahagsmálum hér á landi. Það hefur verið gríðarlegur uppgangur til að mynda í einstökum atvinnugreinum á borð við ferðaþjónustu sem hefur skipt verulega miklu máli við það að koma íslensku hagkerfi á lappirnar eftir það áfall sem það varð fyrir fyrir átta árum.

Það er líka fyrirliggjandi að ýmis hættumerki eru á lofti sem tengjast kannski fyrst og fremst of mikilli þenslu og ofhitnun hagkerfisins. Nú dynja á okkur þingmönnum viðvaranir úr öllum áttum, það verði að fara varlega þegar kemur að því að fara í aukin útgjöld og aukna fjárfestingu, í ljós þessarar þenslu. En þá er úr vöndu að ráða. Við erum líka með þá stöðu sem við þekkjum öll, það er gríðarlega mikil uppsöfnuð þörf bæði fyrir fjárfestingu og aukin útgjöld. Það sást auðvitað á viðbrögðum við fjárlagafrumvarpinu að það virðist valda ýmsum vonbrigðum, bæði þegar kemur að auknum framlögum til reksturs, og nefni ég þá sérstaklega háskólana og Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem vitað var að menn teldu sig hafa umtalsvert meiri þörf fyrir fjármuni en fyrirhugað er í fjárlagafrumvarpinu. En ég vil líka nefna að sjálfsögðu samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir ekki svo löngu síðan með öllum greiddum atkvæðum þar sem boðaðar voru auknar fjárfestingar upp á 13–15 milljarða sem ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Við erum hins vegar hér með frumvarp um hvaða tekna verði aflað á næsta ári. Þær tillögur gera ekki ráð fyrir að þessari þörf verði mætt, hvorki þegar kemur að fjárfestingu né auknum rekstri. Það finnst mér vera umhugsunarefni, til að mynda að standa eigi við skattalækkun sem samþykkt var á síðasta ári sem gengur í gildi um áramótin ef Alþingi ákveður ekki að breyta henni, þar sem ákveðið var að fella niður eitt þrep úr þrepaskiptu tekjuskattskerfi. En það er líka umhugsunarefni að ekki sé fyrirhugað að afla frekari tekna til þess að standa undir þeirri þörf sem fulltrúar allra flokka viðurkenndu að minnsta kosti í orði fyrir kosningar fyrir mánuði.

Það liggur fyrir að tekjustofnar ríkisins hafa verið veiktir á undanförnum árum. Þar má nefna lækkun veiðigjalda en líka ýmsar skattalegar ráðstafanir sem runnu út á kjörtímabilinu og voru ekki framlengdar. Á sama tíma sjáum við talsverðan efnahagslegan uppgang, auðvitað gagnast hann öllum en hann birtist líka í því að við sjáum aukna samþjöppun auðs á hæstu stigum samfélagsins. Færri Íslendingar eiga stærri hluta fjármagnsins í samfélaginu. Þrír fjórðu hlutar fjármagnsins liggja hjá ríkustu 10%. Það er það sem við ættum að vera að ræða hér. Við ættum að vera að ræða hvernig við ætlum að skattleggja þá sem eiga mest, hvort sem er í gegnum einhvers konar stóreignarskatt eða í gegnum hækkaðan fjármagnstekjuskatt, til þess að taka á þessari samþjöppun auðs og til þess að tryggja tekjur til að standa undir velferðarkerfinu, háskólunum, sjúkrahúsunum, framhaldsskólunum, sem eru það mikilvæga jöfnunartæki sem við rekum saman. Það er þetta sem átökin í stjórnmálunum snúast um. Ekki einhverjar krónutöluhækkanir á áfengi. Átökin í stjórnmálunum snúast nákvæmlega um það hvort okkur finnst eðlilegt eða ekki og sanngjarnt og réttlátt eða ekki að skattleggja fjármagnið þar sem fjármagnið er að finna og nýta þá skatta til að vinna í þágu almannahagsmuna. Það gerum við með því að styrkja velferðarkerfið, lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, sem áfram verður með hæsta móti á Íslandi þrátt fyrir nýtt þak á greiðsluþátttöku, sem er jákvætt skref en kemur samt ekki í veg fyrir að þátttakan verður áfram með hæsta móti á Íslandi. Það gerum við með því að tryggja að framhaldsskólarnir standi opnir fyrir öllum en ekki bara sumum, eins og var ákveðið hér fyrir þremur árum. Það gerum við með því að tryggja velferð þeirra sem minnst mega sín. Þá er ég að vitna til öryrkja og aldraðra. Það er vissulega rétt að 11 milljarðar bætast við í almannatryggingar sem er gott. En við vitum öll sem hér stöndum að það mætir ekki því sem við höfum talað fyrir sem er að tryggja lágmarksframfærslu þessara hópa. Það dugir ekki bara að horfa á aukin útgjöld. Við verðum líka að horfa til raunverulegrar framfærsluþarfar þessara hópa og hvað þeir fá á endanum í krónum talið í launaumslagið. Það dugir ekki til. Það dugir ekki einu sinni til samkvæmt þeim stöðlum sem stjórnvöld hafa sjálf gefið út í formi framfærsluviðmiða á heimasíðu velferðarráðuneytisins.

En það þýðir heldur ekki að fara í einhverjar barbabrellur og fara að taka peninga að láni og setja inn í reksturinn. Við vitum öll hvernig það virkar. Þær hagstjórnartilraunir hafa verið gerðar á Íslandi með slökum árangri. Við þurfum bara að horfast í augu við það, þótt það sé óvinsælt og fólk vilji ekki tala fyrir því, að til þess að standa undir rekstri þarf að afla tekna eða sýna aukið aðhald eins og einhverjir hv. þingmenn hafa mælt fyrir í umræðum um fjárlagafrumvarp. En hvar á að sýna aðhaldið? Á að gera það á spítölunum, heilbrigðisstofnununum, heilsugæslunni, skólunum? Eða á að fara í hina síóvinsælu stjórnsýslu sem samt sem áður allir eru sammála um að standi varla undir nafni því hún er orðin svo veikburða? Það er hins vegar alltaf hægt að benda þangað og segja að þar þurfi aukið aðhald. Um leið og við gerum kröfur, sívaxandi kröfur, um að stjórnvöld sinni eftirlitshlutverki, sinni því hlutverki að vernda almannahagsmuni, sinni því hlutverki að standa vörð um hagsmuni neytenda t.d. þegar kemur að matvælaframleiðslu, þá er um leið alltaf talað um hinn mikla eftirlitsiðnað og að þar megi spara.

Nei, herra forseti. Ég held að með því að breyta skattstefnu gætum við náð tvöföldu markmiði. Ég er ekki viss um að meiri hluti þingmanna sé endilega samþykkur því. En það markmið væri annars vegar að efla þær stoðir sem mikilvægastar eru til að tryggja almenna velferð fólks í samfélaginu, velferðar- og menntakerfið, og hins vegar að beita skattkerfinu til þess að auka jöfnuð. Því hitt dugir ekki til. Ef okkur er raunverulega alvara með því að vilja auka jöfnuð í þessu samfélagi, ef við meinum eitthvað með því að við viljum auka jöfnuð í samfélaginu gerum við það í gegnum skattkerfið. Af hverju segi ég það? Jú, af því að sýnt hefur verið fram á það. Ef maður hefur eitthvað lesið sér til í þeim fræðum sem kennd eru við hagfræði og snúast um það hvernig við getum tryggt aukinn jöfnuð þá vitum við að það dugir ekki bara að efla velferðarkerfið á góðum tímum eins og Íslendingar hafa stundum haldið heldur þarf að beita skattkerfinu með prógressífum hætti og dreifa tekjunum og eignunum með réttlátari hætti. Um það snýst pólitík. Um það snýst pólitík sem vill efla jöfnuð. Það er ekki sú pólitík sem við sjáum í þessu frumvarpi. Hér er fyrst og fremst staðið undir lágmarksráðstöfunum sem ekki duga til þess að standa undir þeim útgjöldum sem þegar hafa verið samþykkt á Alþingi Íslendinga.

Ég vil líka ræða þetta út frá hagstjórnarlegu sjónarmiði. Hér hafa skattar verið lækkaðir þrátt fyrir aðvaranir Seðlabanka Íslands sem ég mundi þó ekki kalla afar róttækan í efnahagsstefnu. Af hverju hefur Seðlabanki Íslands varað við þessu? Af því að hann hefur verið að benda á þenslumerki. Hann hefur bent á að skattalækkanir auki beinlínis þensluna. En ef fólk er einráðið í því og ákveðið í að lækka skatta þá þarf að beita aðhaldi á öðrum sviðum. Það er það sem við höfum séð gert á undanförnum árum. Það er ástæða þess að ýmsar stofnanir sem bera sig illa núna eru í þeirri erfiðu stöðu sem raun ber vitni. Ástandið á Landspítalanum varð ekki til í gær og það varð heldur ekki til í hruninu. Þar hefur verið skorið niður frá árinu 2003. Þessi stoð hefur verið veikt.

Þetta er verkefni sem hv. þingmenn standa frammi fyrir, hvernig á að koma til móts við þessa þörf og hvort fólk er reiðubúið að gera það með þeim hætti sem dugir til.

Ég vil ræða líka aðra þá skatta og gjöld sem hér eru nefnd. Ég kom aðeins að kolefnisgjaldinu áðan í andsvari. Mér finnst umhugsunarefni að það sé orðið almennt viðhorf, og það kom fram á loftslagsráðstefnunni í París í desember síðastliðnum, fyrir ári, að markaðslausnin sem var innleidd á vegum Evrópusambandsins með losunarheimildir hefur ekki skilað þeim árangri sem menn töldu, þ.e. þeir sem voru trúaðir á þá lausn. Það er ástæðan fyrir því að við sjáum lækkun á þeim kvótum í frumvarpinu. Það er út af því hvernig sá markaður hefur þróast. Ég sagði áðan að gjaldið teldist vera 80% of lágt á alþjóðavísu til þess að það skilaði tilskildum árangri samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Við erum hins vegar að renna út á tíma til að bregðast við. Þótt Ísland sé lítið land og skipti í raun ekki miklu máli, af því að við erum svo fá, er það samt svo að með því að gera eitthvað af alvöru í loftslagsmálum getum við haft áhrif. Það er líka hlustað á litlu löndin þegar þjóðir heims koma saman og ræða loftslagsmál. Það er hlustað alveg jafn mikið eftir því sem þau segja og hin stóru. Nýjustu fréttir frá Bandaríkjunum benda kannski til þess að það verði ekkert voðalega margar loftslagsráðstefnur í viðbót, miðað við nýjustu ráðstafanir þar í landi þar sem skipaður hefur verið yfir umhverfisstofnun Bandaríkjanna aðili sem beinlínis hefur afneitað loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Kannski mun engu máli skipta hvað við Íslendingar gerum en ég ætla nú að neita að trúa því. Ég bendi á að lítil lönd geta haft mikil áhrif þegar kemur að því að breyta umræðunni. Og við erum að renna út á tíma. Staðreyndin er sú að þegar við horfum til heimsins er meiri opinberum fjármunum, almannafjármunum, varið til að styrkja óendurnýjanlega orkugjafa en hina endurnýjanlegu. Og einmitt vegna öflugs þrýstings hagsmunaaðila hefur ekki tekist að koma á kolefnisgjaldi sem virkar. Það var til að mynda reynt innan Evrópusambandsins 2010. Það var stoppað út af lobbíisma frá hagsmunaaðilum á þessu sviði. En við erum ekki bundin af Evrópusambandinu, sem betur fer. Við getum gert eitthvað sem eftir yrði tekið.

Ég vil líka nefna að ég fagna því að gistináttagjaldið er hækkað. Það var boðað í ríkisfjármálaáætluninni sem lögð var fram. Það er þrefaldað. Ég hefði viljað sjá frekari stefnumótun, það tel ég að bíði þessa þings, til þess að skattleggja ferðaþjónustuna. Það er dapurlegt að ekki hafi tekist að vinna áfram þegar náttúrupassafrumvarpið steytti á skeri einhverja blandaða leið, t.d. að taka upp komugjöld þannig að við stýrðum annars vegar í auknum mæli aðgangi að landinu og hins vegar tækjum inn tekjur til uppbyggingar á innviðum fyrir ferðaþjónustuna. En komugjaldið er auðvitað afmarkaður tekjustofn eins og gistináttagjaldið sem nýtist fyrst og fremst þá í uppbyggingu innviða, framkvæmda á ferðamannastöðum og eitthvað slíkt sem skilgreint verður.

Ég tel raunar að það ætti að taka málefni ferðaþjónustunnar til sérstakrar skoðunar. Ferðaþjónustan kallaði mjög eftir sérstöku ráðuneyti fyrir kosningar. Það mætti jafnvel hugsa sér, til þess að horfa á þau mál með öðrum og nýjum augum, að sameina málefni ferðaþjónustunnar málefnum umhverfisins í umhverfisráðuneytinu og taka upp þar með skýra, græna stefnu þegar kemur að stefnumótun í málefnum ferðaþjónustunnar. Þar ættum við að sjálfsögðu að nýta komugjöld og gistináttagjaldið til þess ekki bara að vera í framkvæmdum heldur líka að horfa til þess hvernig við getum tryggt eðlilegan rekstur í kringum ferðamannastaði. Hér er til að mynda æpandi skortur á landvörslu. Það þarf að hlúa miklu betur að þeim ferðamannastöðum sem við erum með, ekki bara með verklegum framkvæmdum heldur líka með rekstri, til þess að við missum ekki niður þá reynslu og þekkingu sem hér hefur byggst upp þannig að við getum tryggt áframhald öflugrar ferðaþjónustu. Við vitum sem er að þessi mikilvæga atvinnugrein er líka sveiflukennd. Það skiptir máli hvernig við höldum á þeim málum, að við náum einhverri sátt um það hvernig við ætlum að taka gjöld af ferðaþjónustunni og hvernig við ætlum að nýta þau þannig að ferðaþjónustan verði betur rekin.

Herra forseti. Ég er bara rétt byrjuð á minni ræðu en tíminn er því miður á þrotum.

(Forseti (SJS): Það er rétt.)

Það er rétt.