146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið mikilvægt að fá þetta fram hjá hv. þingmanni. Ég tek heils hugar undir með henni að það er afar varhugavert að selja eignir og setja síðan ágóðann beint í rekstur. Það verður að gera með skynsamlegum hætti þannig að við byggjum upp stöðugleika í efnahagsmálum, í ríkisfjármálum til lengri tíma svo að við getum á endanum farið í það markmið sem sameinar okkur, m.a. að byggja upp heilbrigðismálin, heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið o.s.frv.

Ég vil líka hæla því þingi sem var hér fyrir síðustu kosningar, það var margt athyglisvert sem gerðist á því þingi. Það var einhugur í fleiri málum en maður fékk oft á tilfinninguna þegar maður fylgdist með þinginu, í stórum og mikilvægum málum eins og málefnum er varða erlendu kröfuhafana, stöðugleikaframlögin o.s.frv. Ég bind vonir við það, m.a. í ljósi þess svars sem hv. þingmaður setti fram áðan, að við getum sameinast um að fara skynsamlega, á ábyrgan hátt, varlega í að skoða sölu á ríkiseigum eins og bönkunum. Það má alveg ræða það að ríkið eigi að minnsta kosti hlut í Landsbankanum áfram, eða allan, en að við förum markvisst í þetta til þess einmitt að gera ríkissjóð sjálfbærari til lengri tíma litið. Þetta er verkefni sem við þurfum að fara í og við þurfum helst að gera það eins sameinuð og hægt er.