146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[11:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra og öðrum hv. þingmönnum fyrir ræður þeirra.

Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunum í gær og í dag; það hefur árað ágætlega hjá okkur síðustu misserin. Stóraukinn ferðamannastraumur, makríll sem kom á besta tíma og lágt olíuverð og ýmislegt sem hefur unnið með okkur ásamt auðvitað vel heppnaðri tiltekt eftir fjármálahrunið. Þess vegna er nokkuð sérkennilegt að á þessari blússandi siglingu skuli báturinn vera farinn að leka og innviðirnir að fúna og það á sama tíma og færri og færri eignast meiri og meiri hluta af auðnum.

Aðstæður á þingi núna eru um margt sérstakar. Við sitjum yfir vinnu við gerð fjárlaga án þess að nokkur augljós meiri hluti sé að störfum. Það er í sjálfu sér áhugaverður prófsteinn, en í fjárlögum birtist nefnilega ævinlega með afar skýrum hætti afstaða flokkanna til þess samfélags sem þeir vilja byggja. Á síðustu dögum hefur mikið verið rætt um það að hér sé um að ræða hlutlaus fjárlög sniðin af embættismönnum. Því fer auðvitað víðs fjarri. Þetta er saumað út frá ríkisfjármálaáætlun áranna 2017–2021 sem samþykkt var á haustþingi. Það er það sem gerir stöðuna talsvert snúna, að það er einmitt ekki verið að vinna út frá hlutlausum núllpunkti heldur stefnu fallinnar ríkisstjórnar.

Ríkisfjármálaáætlun gerði ekki ráð fyrir nægilegu fjármagni til að fara í einstakar framkvæmdir sem ráðherrar virtust vilja og nægir þar að nefna lækkun greiðsluþátttöku. Fjárlagafrumvarpið virðir heldur ekki mörg þau loforð sem fráfarandi stjórnarflokkar gáfu fyrir kosningar. Og loks er víðtækur vilji þingmanna frá því á haustmánuðum, m.a. með samþykkt samgönguáætlunar, algjörlega hunsaður.

Um leið og það er auðvitað gott að stjórnvöld haldi fast í markmið um stöðugleika og ábyrgð ríkisfjármála verða þau að minnsta kosti að standa við það sem lofað var. Á endanum snýst þetta nefnilega um orð og efndir. Í því ljósi er ágætt að minna á umsögn um fjármálastefnuna sem Seðlabankinn gerði. Hún segir eitthvað á þá leið að ef ekki sé talið álitlegt að draga úr fjárfestingum opinberra aðila þurfi að draga úr öðrum útgjöldum eða afla hinu opinbera aukinna tekna, t.d. með hærri sköttum. Nú liggur fyrir að langflestir flokkarnir vildu standa fyrir talsverðri innviðauppbyggingu þannig að við skulum ætla að breiður samhljómur sé milli flokkanna um verulegar breytingar á frumvörpum. Vinnan fram undan verður því að snúast um hvernig við ætlum að afla tekna og ráðstafa þeim skynsamlega, með öðrum orðum hvernig þingmenn ætla að standa við stóru orðin.

Virðulegur forseti. Við erum öll sammála um að við þurfum að vera skynsöm og hegða okkur með þeim hætti að jafnvægi verði í ríkisbúskapnum og við eigum auðvitað líka að búa í haginn. Við eigum að greiða niður skuldir, spara þar sem við á og forgangsraða af skynsemi. Við megum hins vegar aldrei gleyma því að heildarstaða ríkissjóðs segir ekki alla söguna um hvernig einstaklingar hafa það. Í þriðjudagsviðtali Kastljóssins sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Já, nú, sko, er það auðvitað þannig að við erum öll mannleg og hver hefur sinn mælikvarða … en ef við skoðum bara mælingarnar, hvað hagtölurnar eru að segja okkur þá er ekkert efni í neitt rifrildi hér.“

Í dag búa yfir 6.000 börn við fátækt á Íslandi, öryrkjar og aldraðir eiga margir erfitt með að sækja sér nauðsynlega læknisþjónustu og mörg heimili ná einfaldlega ekki endum saman. Börnin okkar eru að dragast aftur úr öðrum þjóðum í samræmdum skólamælingum, svo sem PISA, og unga fólkið okkar, það sama fólk og mun draga vagn samneyslunnar næstu 40–50 árin, kemur sér ekki þaki yfir höfuðið og hrökklast um á óöruggum leigumarkaði og börnin þvælast á milli skólahverfa og sleppa og missa tengsl við vini sína.

Við höfum því býsna mikið verk að vinna, sýnist mér. Ég er ekki að kalla eftir neinu rifrildi eins og hæstv. fjármálaráðherra kallaði það, aðeins að við tökumst málefnalega á um það hvernig við ætlum að verja þeim fjármunum sem við höfum úr að spila og með hvaða hætti hver og einn á að axla ábyrgð, með öðrum orðum: Hvernig framtíð viljum við bjóða börnunum okkar upp á? Samfylkingin hefur lagt höfuðáherslu á að jafna kjörin í landinu. Þeir sem breiðust bökin hafa eiga að bera meiri byrðar og við eigum að vernda þá sem veikari eru. Til þess þarf að gæta og bæta almannaþjónustuna og styrkja innviðina eins og allir flokkar lofuðu fyrir kosningar. Við þurfum að stórauka fjármagn í heilbrigðis- og menntakerfið og tryggja öllum mögulegt aðgengi að því, óháð efnahag, aldri eða búsetu. Við þurfum að auka fé í samgöngur, fjarskipti og annað sem leikur lykilhlutverk þegar kemur að jöfnun búsetuskilyrða. Loks held ég að við þurfum að fara að eiga alvarlegt samtal við sveitarstjórnarstigið um skiptingu tekjustofna. Á meðan ríkissjóði vegnar nokkuð vel berjast mörg sveitarfélög í bökkum og eiga jafnvel ekki fjármagn í lögbundna þjónustu og það er oft þjónusta sem er algjörlega afgerandi fyrir það hvernig fólki vegnar í lífinu.

Þá er það svo skrýtið að á undanförnum árum hafa stjórnvöld kastað á glæ tækifærum til þess að jafna kjörin og ráðast í nauðsynlega innspýtingu á innviðum. Létt hefur verið álögum af hátekjueinstaklingum, við höfum lækkað veiðigjöld á fyrirtæki í sjávarútvegi og samtals gerir þetta tvennt tekjumissi upp á um 15 milljarða kr. á ári. Einhver hefði sagt að það væri gott að eiga þessa peninga í handraðanum núna.

Á sama tíma hafa jöfnunartæki á borð við barnabætur og vaxtabætur verið lækkuð og þetta dregur auðvitað úr vægi og jöfnunarhlutverki stuðningskerfanna.

Í fjárlagafrumvarpinu virðast þær viðbætur sem settar eru í heilbrigðiskerfið aðeins vera rétt rúmlega viðbrögð við verðlags- eða launaþróun. Þannig gæti t.d. Landspítalann, skilst manni, vantað 5 milljarða og Sjúkrahúsið á Akureyri 350 milljónir, eingöngu til að standa undir sama þjónustustigi og þeirri aukningu sem er fyrirsjáanleg, m.a. vegna breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar og aukins ferðamannastraums.

Til að setja þetta mál aðeins í samhengi talar Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, um að þetta sé um 10% niðurskurður, þetta sé 5 milljarða niðurskurður, og það sé mesti niðurskurður sem Landspítalinn hefur staðið frammi fyrir frá því eftir hrun. Það er býsna mikið.

Á síðasta kjörtímabili var atvinnuvöxturinn langmestur í þjónustugreinunum innan ferðaþjónustunnar og það er í sjálfu sér ágætt að ferðaþjónustan blómstri. Ísland á hins vegar langmest undir því að efla nýsköpun og skapandi hugsun. Ef við ætlum að vera raunverulega samkeppnishæf við nágrannaþjóðir okkar þurfum við að gera stórátak í að efla menntakerfið. Við þurfum að fullfjármagna það, bæði framhalds- og háskóla. Við þurfum auðvitað á endanum líka að tryggja að þeir séu opnir öllum, óháð efnahag, aldri og búsetu.

Við þurfum að huga líka miklu betur að ungu barnafólki. Það eru vonbrigði eins og mér sýnist vera gert ráð fyrir, að raunlækkun sé á barna- og vaxtabótum. Það þarf að laga. Einnig þarf að finna leiðir til að mæta húsnæðisvanda ungs fólks til lengri tíma en við þurfum líka að taka á þeim bráðavanda sem er svo augljós, sérstaklega kannski á höfuðborgarsvæðinu.

Svo þarf að hlúa miklu betur að öldruðum og öryrkjum. Allt of margir þeirra búa einfaldlega við fátækt og hafi þeir möguleika á að afla sér tekna eru þær jafnharðan teknar af þeim með skerðingu. Ofan á þetta bætist hár heilbrigðiskostnaður sem lendir jafnvel á aðstandendum ef þeir ráða ekki við það sjálfir. Að lokum varðandi aldraða er orðinn skortur á hjúkrunarrýmum og hjúkrunarheimilum og hjúkrunarheimilin í landinu eru vanfjármögnuð. Dæmi eru um að sveitarfélög séu að sligast undan þeim kostnaði sem á þau leggjast.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara neitt nákvæmar ofan í saumana á einstökum liðum í fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvörpunum við þessa umræðu en ég minni á loforð flokkanna sem þeir flestir settu fram fyrir kosningar um átak í uppbyggingu almannaþjónustu. Þess vegna vil ég hvetja alla þingmenn til að gera þær breytingar sem eru nauðsynlegar á frumvörpunum. Það þarf nefnilega að tryggja hér ekki bara efnahagslegan heldur líka félagslegan stöðugleika í landinu.

Við skulum láta þetta plagg vera þannig að það sé líklegra að landið færist í átt að meira réttlæti en ranglæti í framtíðinni Og nú er bara komið að því að þingmenn standi við stóru orðin svo þeir geti mætt sæmilega sperrtir í jólaboðin eftir nokkra daga.