146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég myndi þora að nota orðið óheiðarleiki. En kannski birtist þetta enn skýrar nú en oft áður vegna þess að fjárlögin koma eiginlega beint ofan í kosningar. Fólki er í svo fersku minni hvernig menn lofuðu og töluðu þá.

Það er ekkert launungarmál að ég hef ákveðna skoðun á því hvernig við getum aflað fjár til þessarar uppbyggingar. Reyndar kom það allt fram í ágætri ræðu hv. þingkonu Katrínar Jakobsdóttur áðan. Ég tel einfaldlega, ólíkt klassískum hægri mönnum sem vilja eingöngu nota skattkerfið til tekjuöflunar, fyrir nauðsynlegustu grunnþætti, að einn mikilvægasti hluti skattkerfisins sé tekjujöfnunartæki. Við erum búin að missa út úr höndunum tugi milljarða vegna þess að menn hafa verið að lækka álögur algerlega að óþörfu á þá sem hafa breið bök og geta borið þær. Nú bætast við ákvarðanir um að fella niður milliskattþrep. Það er kannski ekki skattur sem leggst á mjög háar launatekjur þannig að ég veit ekki hvað manni á að finnast um það. En ég held a.m.k. að við höfum talsverða möguleika til þess að kroppa verulega fjármuni til þess að standa undir ekki bara því sem við lofuðum heldur því sem er algerlega nauðsynlegt ef þetta kerfi okkar á ekki einhvern veginn að lamast og við að dragast aftur úr öðrum löndum.