146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:26]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Nú erum við að ræða hitt stóra pólitíska málið sem er náttúrlega beintengt því sem við ræddum í gær, þ.e. nú erum við að ræða hvernig við ætlum að afla teknanna til að framkvæma það sem við hugsum okkur varðandi samfélagið. Ég fagna því að einhverjir hv. þingmenn hafa í dag rætt um þetta sem það sem það er, stórpólitískt mál. Ég sakna þess mjög oft þegar við erum að ræða tekjuöflun ríkisins. Stundum lætur fólk eins og það að vilja skattheimtu með ákveðnum hætti, vilja afla ákveðinna tekna, sé eitthvert sérstakt áhugamál ákveðinna stjórnmálaflokka og stjórnmálafólks. Það er ekki þannig. Við viljum öll hafa það samfélag sem við búum í sem best úr garði gert. Til að standa undir því þarf að afla tekna.

Ýmis orð eru látin falla í umræðunni, bæði í þessum þingsal og utan veggja þessa húss. Hér hefur t.d. verið talað um hátt skatthlutfall á Íslandi miðað við verga landsframleiðslu. Talað er um að við Íslendingar séum í þriðja sæti á eftir Dönum og Svíum hvað það varðar, að teknu tilliti til lífeyrisiðgjalda. Við þetta hef ég tvennt að athuga. Í fyrsta lagi: Hvar í ósköpunum ættum við annars staðar að vera en á meðal Norðurlandanna? Erum við ekki að tala um það sí og æ að við viljum vera velferðarsamfélag, norrænt velferðarsamfélag í anda þess sem þar gerist best? Hvar í ósköpunum ættum við að vera á lista sem þessum ef ekki einmitt þar? Hins vegar, og það er hin athugasemdin mín, þá held ég að þetta sé einfaldlega ekki rétt. Þarna er tekið tillit til lífeyrisiðgjalda. Lífeyrisiðgjöld eru ekki skattur. Það er alveg sama hvernig við snúum því og teiknum upp í okkar heimsmynd sem hlýtur að ráðast af afstöðu til skatta, eða ekki, lífeyrisiðgjöld eru ekki skattur.

Við erum með sjóðsöfnunarkerfi. Við greiðum inn í lífeyrissjóði, við fjárfestum í lífeyristekjum framtíðarinnar. Og skatttekjum, því við útgreiðslu er aflað skatttekna til ríkissjóðs og einnig til sveitarfélaganna. Þetta eru uppsöfnunarsjóðir en ekki gegnumstreymiskerfi eins og mjög víða er um heim. Inngreiðslurnar í lífeyrissjóðina koma í veg fyrir hærri skatta síðar, en til þeirra kæmi ef ekkert væri í þessum sjóðum. Það að mála upp þá mynd að taka skatthlutfall og lífeyrisiðgjöld, skella því saman og setja inn í töflu sem setur okkur á einhvern stað, við endum á stað sem við hljótum þrátt fyrir allt að vilja vera á, er einfaldlega röng mynd að mála upp. Þetta er ávísun á greiðslur síðar. Við sem tölum á hátíðarstundum, í kosningabaráttu, þegar við tölum við umbjóðendur okkar, um það velferðarsamfélag sem við viljum sjá hér ættum að spyrja okkur alvarlegra spurninga hvað það varðar og hvernig skattheimtu er raunverulega háttað hér á landi miðað við annars staðar á Norðurlöndum.

Ef við tökum lífeyrisiðgjaldið út, hvar erum við þá stödd? Það er spurning sem við ættum að velta fyrir okkur. Kannski er það ástæðan fyrir því að innviðauppbygging hefur engin verið, síður en svo, síðustu árin. Kannski er það ástæðan fyrir því að Landspítalinn og fleiri stofnanir þurfa að reka sig á minni fjármunum en sambærilegar stofnanir annars staðar. Kannski er ástæðan einmitt sú að við erum einfaldlega ekki með sama skattkerfi og þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Það er eins og við þorum ekki að standa í lappirnar þegar kemur að því að afla tekna til ríkissjóðs. Við segjum A: Við viljum fá norrænt velferðarkerfi, við erum best og frábærust í heimi með það, en við þorum ekki að segja B: Við viljum afla þessara tekna til að standa einhvern veginn undir þessu.

Ég sé að enn og aftur situr hæstv. fjármálaráðherra ekki í salnum. Ég fer nú að taka þetta persónulega. Alltaf þegar ég vil eiga orðastað við hann er hann einhvers staðar annars staðar. En ég er ekki að gráti kominn, ég hygg að við eigum eftir að eiga mörg samtöl um fjárlagafrumvarp sitjandi hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar. Þetta eru mörg orð sem maður þarf að hafa hér í kollinum. En ég vil eins og í gær lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram. Það er hálfklárað verk. Ég held að við þurfum að velta því alvarlega fyrir okkur hvernig við getum lagt fram eitthvert plagg og gumað af því að þetta séu hallalaus fjárlög þegar það vantar dittinn og dattinn í það. Það vantar að fylla upp í myndina. Það vantar að útskýra hvernig eigi að gera alls kyns hluti sem Alþingi er þó búið að samþykkja. Þetta fjárlagafrumvarp, væri það úrlausn á stærðfræðidæmi í grunnskóla, hefði það fengið falleinkunn. Það er ósköp einfalt mál. Þú getur ekki komið í bankann þinn og sagt: Ég á þetta og þetta mikið af peningum til að eyða um hver mánaðamót en ástæðan er sú að ég tek ekki með allt sem ég ætla hvort sem er að eyða peningum í. Það gengur ekki. Það eru vonbrigði að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki hafa skilað betra verki. Hann getur ekki — má ég segja hann? Þarf ég að segja hæstv. fjármálaráðherra aftur?

(Forseti (ÞórE): Já.)

(Gripið fram í: Alltaf.) Alltaf. Takk. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson getur ekki einfaldlega skýlt sér á bak við það endalaust að þetta séu einhverjar samþykktir sem Alþingi gerði og komi honum ekkert við. Það komi framkvæmdarvaldinu ekkert við hvað löggjafarvaldið samþykkir. Fór hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson um allt kjördæmið í aðdraganda kosninga og sagði: Við ætlum ekki að fara í þessa samgönguáætlun? Við ætlum ekki að fara í þær framkvæmdir sem var talað um og samþykktar í samgönguáætlun? Mér þætti það athyglisvert ef svo hefði verið. Kostnaðarþátttaka sjúklinga? Hvar er hún í fjárlagafrumvarpinu? Hvar eru þökin? Hvar eru peningarnir sem á að setja þar inn? Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson að segja við allar þessar stofnanir, alla þessa forstöðumenn stofnana, sem eru að biðja um aukna fjármuni af því að innviðir hafa verið sveltir undanfarin ár, stofnanir í menntakerfinu, Landspítalann, Landhelgisgæsluna? Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson að segja við þetta fólk annað en að koma með einhverjar pillur til þess eins og hann gerði hér úr ræðustól í gær? Einhverjar pillur til forstjóra ríkisstofnana um að þeir eigi ekki að vera að ræða sín mál við fjölmiðla því þá sé á einhvern hátt verið að ganga fram hjá þinginu? Ég er hluti af þessu þingi og ætla að lýsa því yfir að mér finnst á engan hátt verið að ganga fram hjá mér eða öðrum í þessu þingi þótt forstjóri ríkisstofnunar ræði fjárhagsstöðu hennar við fjölmiðla.

Mér hefur oft þótt hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson hafa furðulegar hugmyndir um eðli fjölmiðlunar. Það er eins og hann átti sig ekki alveg á því hvar við erum stödd í tímanum hvað það varðar. Hann hefði kannski gert betur í að hlusta meira á þessa forstöðumenn áður en hann lagði fram fjárlagafrumvarp sitt frekar en að leggja það fram hálfklárað með öllum þessum lausu endum þar sem vantar endalaust inn í. Endalaust er kannski fulldjúpt í árinni tekið, en mjög víða vantar umtalsverðar tekjur. 13–15 milljarða í samgönguáætlun. 1,3–1,8 milljarða vegna kostnaðarþátttöku sjúklinga. Er hægt að segja: Þetta eru hallalausu fjárlögin mín, en þau eru hallalaus því að ég er ekki með tekjur fyrir öllum þeim útgjöldum sem við ætlum að fara í? Þetta er einfaldlega ekki boðlegt.

Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson verður tíðrætt um að við eyðum ekki sömu krónunni tvisvar. Ef við setjum X marga milljarða í almannatryggingakerfið setjum við þá milljarða ekki einhvers staðar annars staðar. Það er allt satt og rétt. En ég ætla að líka að upplýsa hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson um að maður getur ekki heldur eytt krónum sem maður hefur ekki aflað. Maður getur ekki lofað útgjöldum en ekki haft bein í nefinu til að standa undir því að fjármagna þau. Það er einföld hagfræði.

Mér finnst þetta allt of mikil lenska í umræðum allt of margra sem að stjórnmálum koma þegar kemur að tekjuöflun. Við látum eins og þetta sé það neikvæðasta sem upp getur komið, ofbeldi jafnvel, skattar. Þetta er tæki samfélagsins til að búa sem best að því kerfi, því umhverfi, því lífsumhverfi sem við öll búum við. Það er menntakerfið okkar. Það er heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið. Það er ekki hægt að fría sig ábyrgð þegar kemur að því að afla tekna ef menn ætla svo að guma af góðum árangri þegar kemur að fjármálum.

Ég sé ekki betur en að í fjárlagafrumvarpinu sé tekjuafsal upp á rúma 5 milljarða kr., nettó 5,2 milljarða, ef ég skil þetta rétt. Þar er ýmislegt sem er án efa góðra gjalda vert. Þarna eru ívilnanir vegna rannsókna og þróunarstarfsemi, það er afsláttur vegna hlutabréfakaupa í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ég á eftir að kynna mér þessi mál. Það getur meira en vel verið að margt þarna sé skynsamlegt og gott og ég muni bara styðja það og sé hið besta mál. En þegar menn afsala sér tekjum en ætla samt sem áður að setja aukna fjármuni í uppbyggingu innviða þarf að finna þær tekjur einhvers staðar annars staðar. Það er ekki hægt að eyða fjármunum sem maður ekki aflar þér.

Ég sakna þess að hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson útskýri fyrir okkur af hverju hann er að afsala ríkissjóði 5 milljörðum, af hverju hann finnur ekki þeim samþykktum sem löggjafarvaldið hefur þó gert stað í fjárlögunum sínum, af hverju hann leggur fram hálfklárað verk en heldur svo glærusýningar og gumar af því út á við að hann sé að leggja fram hallalaus fjárlög.

Ég sagði í umræðum í gær að ég liti á þetta fjárlagafrumvarp sem umræðugrundvöll. Að sumu leyti er það gott. Það er nýjung að ekki sé lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem farið er í smáatriðum yfir einstök mál hvað varðar tekjur og útgjöld. Það er ágætt að leggja fram umræðugrundvöll. En þá kemur enn og aftur að því sem mér varð tíðrætt um í gær sem er ábyrgð okkar þingmanna, bæði þeirra sem sitja í þeim þingnefndum sem munu fjalla um þessi mál en einnig okkar hinna sem sitjum í þingsal þegar kemur að því að samþykkja breytingar á frumvarpinu. Ef við fáum í hendur hálfklárað verk er það okkar að klára það. Gerum það með það í huga að byggja upp það norræna velferðarsamfélag sem við flest ef ekki öll töluðum um að stefna að í aðdraganda kosninga. En það þurfa að vera báðar hliðar á peningnum í því, bæði þegar kemur að tekjum og útgjöldum. Það er ekki hægt að guma af útgjöldum en geta svo ekki staðið í lappirnar þegar kemur að því að horfa til þess hvernig á að fjármagna þau útgjöld, hvernig á að fjármagna það samfélag sem við viljum búa í saman.