146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[12:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er hefur verið ágætisumræða um það sem við höfum fram til þessa kallað bandorminn, þ.e. ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga. Mér hefur þótt margt áhugavert koma fram í máli þingmanna. Auðvitað hefur verið farið vítt og breitt yfir, ekki kannski bara verið að tala um nákvæmlega þetta frumvarp eðli málsins samkvæmt því að það hangir saman við fjárlagafrumvarpið og ástæða til að tala um það í því samhengi. Það eru ágætir hlutir í þessum bandormi, sumir finnst mér, meðan mér finnst aðrir síður góðir eins og gefur að skilja.

Ég verð eiginlega að byrja á því að segja í ljósi þess sem sagt var áðan, og það hefur auðvitað komið fram af hálfu ráðherra, að þetta er frumvarp ríkisstjórnar sem er að fara frá, er í rauninni farin frá, og það byggir algjörlega á hennar ríkisfjármálaáætlun og frá henni er mjög lítið vikið. Þannig var frumvarpið kynnt. Það liggur því alveg fyrir að þetta er frumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem nú er fallin.

Afkoman sem hér hefur líka verið mikið til umræðu, og ég hef sagt það bæði við fjárlagaumræðuna fyrir yfirstandandi ár og áður, byggist auðvitað á stöðugleikaframlögum, þ.e. einskiptistekjum og arðgreiðslum frá bönkunum. Það eitt og sér ásamt því að Sjálfstæðismenn hafa viljað sérstaklega og hafa lagt sig fram um að lækka skatta er eitthvað sem er endurtekið efni, þ.e. það er endurtekið í hagsveiflu eins og gerðist fyrir hrun. Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur sýnt fram á að þetta er ekki góð hagstjórn sama hvað hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt um þau mál. Þetta er nákvæmlega sama og gerðist hér fyrir hrun, þ.e. í kringum ákveðna þenslu. Tekjur sem við höfum núna, fyrir utan þær tilteknu tekjur sem ég nefndi áðan af stöðugleikaframlögum eða arðgreiðslum, eru einnig tekjur af miklum ferðamannaiðnaði sem er frábært að mörgu leyti, ekki öllu, en er líka mjög viðkvæmur ef út í það fer að allt gangi til baka og þær tekjur hrynji kannski mjög hratt.

Ríkisstjórnin er að lögfesta skattbreytingar sem er algjörlega í hennar anda, þær eru ekki í mínum anda og ekki anda Vinstri grænna, það er alveg ljóst. Þess vegna vill maður ræða málin svolítið út frá því þó að við stöndum frammi fyrir þessum sérstöku tímum þar sem engin ríkisstjórn er raunverulega eða meiri hluti á þingi.

Hér hefur líka verið talað svolítið um að nú ráði þingið og ákvarðanirnar séu í höndum þingsins. Ég velti samt fyrir mér, t.d. í ljósi samgönguáætlunar, hvort það er raunverulega þannig. Ef það er svo að samþykkt þingsins er virt að vettugi eins og gerist með þá tillögu, hvert er þá raunverulegt vald þingsins ef framkvæmdarvaldið ákveður að hunsa það algjörlega? Ég veit það ekki. Ég hef ákveðnar efasemdir. Ef ríkjandi meiri hluti væri á þingi og þetta hefði verið lagt fram svona þá myndi þessi ríkjandi meiri hluti væntanlega standa með þessu fjárlagafrumvarpi. Auðvitað veit ég að við höfum gert breytingar á frumvarpi í gegnum tíðina, alltaf, en við erum að tala um tugi milljarða samt sem áður. Ég er ekki viss um að það fengist endilega samþykkt í fjármálaráðuneytinu ef út í slíkar breytingar yrði farið. Þess vegna hef ég velt fyrir mér hvert okkar raunverulega vald er.

Bara svo ég haldi mig við samgönguáætlunina þá höfum við Vinstri græn lagt það til að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar verði færðir upp til verðlags og það skili okkur u.þ.b. 7 milljörðum á ári, sem veitir nú ekki af inn í þann málaflokk. Ég held að við höfum verið ein flokka sem lögðum sérstaklega fram útfærða ríkisfjármálaáætlun, þ.e. hvernig við hygðumst auka tekjur til að mæta þeim útgjöldum sem samfélagið kallaði á. Þetta var ekki eitthvað sem við bara vildum. Eins og hér hefur verið rakið lofuðu flestir flokkar að bæta þar úr. Við höfum vissulega mismunandi nálganir á það hvernig við gerum það, en það verður ekki gert án aukins fjármagns. Mér finnst afar sérstakt þegar þingmenn telja sig geta verið hlutlausa, eins og kom fram hjá einum hv. þingmanni áðan, þegar kemur að því að fara í slíkar aðgerðir. Ég átta mig ekki alveg á því.

Ég hef líka sagt og get sagt það aftur, það er ekki raunverulegur hagnaður af rekstri ríkissjóðs ef hann yfirfærist í halla stofnana, ef það er þannig að í öllum stofnunum, nei, ég ætla ekki að segja öllum, í mjög mörgum stofnunum sé halli, uppsafnaður halli, uppsöfnuð fjárþörf og vandi og skorið hefur verið niður. Það er búið að taka til. Sums staðar má gera betur. Ég ætla ekki að draga úr því. En það er ekki af því bara, sem ákallið heyrist utan úr samfélaginu mjög víða, úr menntakerfinu, úr heilbrigðiskerfinu, vegna samgöngumála. Þetta er ekki af því bara.

Þegar þessir innviðir okkar eru ófjármagnaðir er verið að ýta gjöldum eða útgjöldum inn í framtíðina, það er verið að ýta þeim til komandi kynslóða, því að þetta mál verður ekki leyst bara með þessu frumvarpi eða frumvarpi á næsta ári. En það þarf að byrja. Það er ekki hægt að bíða. Samkomulag er á Alþingi um það og hefur verið að stöðugleikaframlögin gangi til að greiða niður skuldir, um það erum við öll sammála, við eigum að gera það. Við eigum að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs. Ef við seljum eignir sem koma úr slitabúunum fara þær í að greiða niður vexti eða lækka vaxtabyrðina. En við getum ekki bara gert það og ekki fjárfest svo um munar inn í framtíðina. Það er a.m.k. mín skoðun og skoðun okkar Vinstri grænna sem birtist í ríkisfjármálaáætlun okkar. Við höfum viljað fara í raunverulegar umbætur. Við erum tilbúin til að afla tekna til þess eins og ég sagði áðan.

Við höfum lagt til að sækja skatta og tekjur til þeirra sem teljast til auðugustu hópa samfélagsins, þ.e. ef menn eru með mjög háar tekjur og eru á meðal 3% framteljenda, auðlegðarskatt sem eiga t.d. yfir 120 millj. kr. hreinar eignir en þær geta verið margvíslegar. Við höfum talað um að taka inn af auðlindunum okkar, bæði í raforku og í sjávarútveginum. Þrátt fyrir stöðu hans núna eru þessi afnot, þ.e. það sem hann skilar til þjóðarbúsins, allt of lítil. Ég minni enn og aftur á þá hræðsluáróðursumræðu að þá fari allt á hliðina. Það er enginn að fara í þá átt. En við þurfum að taka á veiðigjöldunum og raforkuskattinum. Og svo þurfum við auðvitað að standa saman um að efla skatteftirlitið og reyna að ná einhverju til baka af 80 milljarða kr. undanskotum sem er vitað um, eins og skattstjóri hefur sagt.

Hér var líka nefnd salan á bönkunum. Það er líka hluti af þessum stöðugleikaframlögum. Ég verð að taka undir með hv. formanni Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur, hvað það varðar að plönin verða að liggja fyrir um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hverjir geta keypt? Verðum við að fá hingað inn erlent fé eða eiga lífeyrissjóðirnir að halda áfram að fjárfesta? Við þurfum líka aðeins að hugsa um hverjir koma að því. Það skiptir máli.

Eins og komið hefur verið inn á á umræðan alltaf að snúast um það að ríkiskassinn er fyrir okkur öll, þegna þessa samfélags, og á að snúast um velferð. Það var tónninn sem var sleginn í kosningabaráttunni. Ég held að við getum verið sammála um það. Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að skattkerfið sé notað til þess að jafna stöðu fólks hvernig svo sem hún er, hvort sem við ræðum um þau 6.000 börn sem lifa við skort, eins og UNICEF kynnti okkur í janúar á árinu, eða hvort við erum að tala um unga fólkið sem vill fá að velja hvort það leigir sér eða kaupir af því að það er ekki jafn jarðfast og eldri kynslóðir hafa kannski kosið að vera, þ.e. að kaupa sér alltaf eign, þá er það miklu síðra hlutskipti ungs fólks og sérstaklega þegar það er að byrja að búa, en til þess þarf auðvitað að vera heilbrigður leigumarkaður. Við þurfum að sjá til þess að það geti orðið.

Við þurfum líka með öflun tekna fyrir ríkissjóð að huga að þeim sem minna mega sín og höllum fæti standa í samfélaginu. Hér hafa verið nefndir eldri borgarar og öryrkjar. Það er líka til mjög tekjulágt fólk, verkafólk, sem ber lítið úr býtum. Það þarf líka að koma til móts við það í gegnum kerfið. Það er vel hægt án þess að verið sé að kollvarpa öllu eða setja allt á hliðina eins og gjarnan er talað um þegar launahækkanir verða, stór hluti af því sem er verið að bæta í vegna heilbrigðismála og annarra mála og skóla, við vitum það. Það eru verðlagsuppfærslur og það er vegna launahækkana. Það er ótrúlega lítið inn í hinn eiginlega rekstur. Allt of lítið.

Frú forseti. Ég hef verið að reyna að sinna fjárlagafrumvarpinu, fór samt aðeins á handahlaupum yfir þennan bandorm. Það sem mig langaði kannski helst að stikla á er þessi verðlagsuppfærsla krónutölu skatta og gjalda. Ég er í sjálfu sér ánægð með að það á að fara umfram verðbólgu. Talað var um 5%, hér eru 4,7%. Ég hefði viljað sjá það fara alveg í 5%. Ég held að það sé gott. Hér var líka talað um kolefnisgjaldið og annað slíkt. Ég tek undir þá umræðu sem fór fram um að hækka eigi það og hafa hækkunina almennilega til að mæta Parísarsamkomulaginu og til að standa í lappirnar sem þjóð, auðug þjóð. Og umræða var um hækkun gistináttaskattsins.

Sveitarfélögin hafa verið að kalla mikið eftir nýjum tekjustofnum. Þau þurfa auðvitað að sinna innviðum sínum sem þau fá ekki bætt úr ríkissjóði og fá ekki endilega beinar tekjur af ferðamanninum heldur. Það eru til alls konar samsetningar af samfélögum. Mér dettur í hug Mývatnssveit þar sem mikið af fólki kemur í vinnu yfir hábjargræðistímann, er ekki með lögheimili þar, og þar af leiðandi fara skatttekjurnar út úr samfélaginu, það er gegnumstreymi sem skilar sér kannski að einhverju leyti í stofnanir eða fyrirtæki innan sveitarfélagsins sem skilar sér svo jú að einhverju leyti til sveitarfélagsins sjálfs. En það er gríðarlega viðkvæmt og stórt svæði, sem komið hefur m.a. fram í málefnum þeirra varðandi frárennsli og annað slíkt sem þau ráða ekki við. Slík sveitarfélög þurfa að fá tekjuskattsstofna bætta. Við töluðum um að þau fengju hluta af gistináttagjaldinu. Mér finnst að taka þurfi það til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd, að það fari ekki bara beint í ríkissjóð. Við höfum líka viljað taka fé inn í gegnum komugjöld. Ég held að það sé hið besta mál í ljósi þess hvernig staðan er núna.

Mig langar aðeins að vekja athygli á lið 3.10 Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna, bara í blárestina af því að það er alltaf þannig að tíminn hleypur frá manni. Fyrri hlutinn finnst mér afar góður. Verið er að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist af því að tengingar maka voru afnumdar. En í restina kemur þetta og það hefur gerst áður. Mér finnst í ljósi þess hve staðan er góð að við þurfum að skoða þetta. Hér er verið að gefa enn og aftur leyfi til að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Sjóðnum er ekki ætlað að standa straum af rekstrarkostnaði. Honum er ætlað að vera nýbyggingarsjóður (Forseti hringir.) og ég held að við þurfum að sjá til þess að einhverjir peningar verði til í þeim sjóði því að fram undan er gríðarleg uppbygging hjúkrunarheimila.