146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017. Eins og fram kemur í greinargerð með umræddu frumvarpi er meginefni þess m.a. að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta verði hækkaðar í takt við forsendur fjármálaáætlunar og komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2017. Í frumvarpinu kemur fram að tímabundnir útreikningar vaxtabóta verði framlengdir óbreyttir um eitt ár að frátöldum eignamörkum bótanna sem hækka um 12,5% þannig að útgjöld vegna vaxtabóta haldast óbreytt frá fjármálaáætlun.

Við í Framsóknarflokknum lögðum áherslu á breytta útreikninga og forsendur barnabóta í kosningabaráttunni og lögðum til að barnabætur væru eyrnamerktar hverju barni og þær stórhækkaðar. Þetta væri hluti af skattkerfisbreytingum sem lagðar voru til í skýrslu sérfræðinganefndar sem skilaði af sér niðurstöðu fyrir nokkru síðan. Auk þess töluðum við Framsóknarmenn um breyttar áherslur í skattamálum sem væru lægri skattar fyrir millistétt og þá sem lægri hafa tekjurnar og þeir sem hærri hefðu tekjur borguðu hærri prósentu skatta. Í raun er þetta samt flóknara en hér um ræðir því að um mikla kerfisbreytingu er að ræða sem snýst m.a. um kerfisbreytingu varðandi persónuafslátt og breytingar á vaxtabótakerfi.

Okkur finnst mikilvægt að þessir þættir verði kannaðir í samhengi við ríkisfjármál. Hins vegar erum við á sérstökum tímamótum núna þar sem starfsstjórn leggur fram fjárlagafrumvarpið og það frumvarp sem við ræðum að þessu sinni. Það er því verk nýrrar ríkisstjórnar, sama hver hún verður, að móta stefnu í skattamálum ríkisins.

Ég held og mig minnir að allir flokkar hafi talað um mikilvægi innviðauppbyggingar í okkar ágæta samfélagi í liðinni kosningabaráttu. Auk þess var talað um mikilvægi þess að viðhalda hér stöðugleika og nýta aukið svigrúm ríkissjóð til uppbyggingar. Við heyrum á öllum fréttum að aukið fé vantar til innviðauppbyggingar, m.a. heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála, lífeyrismála og þannig mætti áfram telja. Við í Framsóknarflokknum töluðum um mikilvægi þess að efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og styrkja þyrfti þær og efla eftir þær sameiningar sem farið hefur verið í á undanförnum árum. Við værum með stærri stofnanir sem gætu tekið að sér sérhæfð verkefni. Til dæmis á Akranesi væri hægt að efla enn frekar liðskipta- og kvennaaðgerðir. Með því móti væri hægt að létta álagi af Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Auk þess höfum við öflugar heilbrigðisstofnanir í kringum höfuðborgarsvæðið sem gætu tekið við einhverju af þeim hlutverkum sem sinnt er á Landspítala. Eins og margar fréttir hafa borið með sér er Landspítalinn oft yfirfullur af sjúklingum, álag á starfsfólk mikið á meðan auðar deildir eru í heilbrigðisstofnunum í kringum höfuðborgarsvæðið.

Hins vegar er það að þrátt fyrir þetta þarf aukið fjármagn inn í heilbrigðiskerfið og það hefur verið gert undanfarin ár en meira þarf til og í ríkisfjármálaáætlun er verið að auka við. Þegar stórar stofnanir hafa gengið í gegnum erfiðleikatímabil í rekstri tekur tíma að snúa erfiðri þróun við. En við komum að þeim punkti aftur og aftur að við þurfum að fara í stefnumótun í heilbrigðismálum til að meta og greina hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið. Þar þarf að taka tillit til ýmissa þátta eins og fjarlægða, samgangna, aldurssamsetningar og annarra þátta sem skipta verulegu máli. Í þeirri stefnumótun þarf að koma fram hver fjárþörfin er og skoða ýmsa tekjustofna í því samhengi.

Í þessu frumvarpi er jafnframt fjallað um hækkun á gistináttaskatti. Það er nauðsynlegt til að afla fjármuna í gegnum ferðaþjónustuna en hér er um verulega krónutöluhækkun að ræða, þreföldun fyrir hverja selda gistináttaeiningu frá 1. september 2017. Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa nokkrir litlir rekstraraðilar lýst áhyggjum sínum af því að þetta sé föst krónutöluhækkun sem gæti haft áhrif á rekstur þeirra, sérstaklega þeirra sem bjóða upp á ódýra gistingu, og telja að jafnvel væri sanngjarnara að um væri að ræða ákveðna prósentuhækkun í þessu samhengi, þ.e. af þeirri gistingu sem boðið er upp á.

Auk þessa þarf að fara í stefnumótun í ferðaþjónustu. Við þurfum meiri tekjur inn í málaflokkinn til uppbyggingar. Við Framsóknarmenn höfum margir verið hrifnir af komugjöldum til landsins sem við teljum að sé skilvirk leið til að ná fjármunum inn í málaflokkinn. Auk þessa mætti skoða bílastæðagjöld á ferðamannastöðum. Stefnumótun í málaflokknum er mikilvæg og hluti af þessum gjöldum á að okkar mati að renna til baka til sveitarfélaganna til uppbyggingar á ferðamálum þar. Hvað varðar hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra veit ég ekki alveg hvort það sé rétt leið að það sé eingöngu ein upphæð á einstaklinga, sama hvaða laun þeir hafa. Við getum haft mismunandi skoðanir á því en samt er hér um að ræða framlengingu á bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Hér komum við aftur að sama málinu, við þurfum stefnumótun í málaflokknum og það á alveg jafn vel heima undir stefnumótun í heilbrigðismálum þar sem þessir flokkar tvinnast saman.

Í seinni hluta ræðunnar verð ég aðeins að ræða hluti sem koma inn á fjárlögin, almannatryggingar, þar sem ég var framsögumaður þeirra mála í hv. velferðarnefnd þegar það fór í gegnum þingið og afgreitt þaðan fyrir nokkrum vikum. Nú er verið að segja aukalega 11,1 milljarð inn í almannatryggingakerfið og því er ekki hægt að segja að ekkert sé verið að gera í þeim efnum. Í þeim breytingartillögum sem voru gerðar hjá hv. velferðarnefnd og meiri hluta þingmanna hækkuðu einstæðir eldri borgarar upp í 280 þús. kr. frá 1. janúar 2017 og 300 þús. frá 1. janúar 2018. Hið sama má segja um öryrkja sem hafa sérstaka framfærsluuppbót. Hins vegar er það svo að eingöngu er um að ræða kerfisbreytingar í málefnum aldraðra þar sem launaflokkar eru sameinaðir, ein skerðingarprósenta í stað þriggja áður og krónu á móti krónu skerðingu er hætt. Því miður náðist þessi kerfisbreyting ekki hjá öryrkjum þar sem ekki náðist sátt milli Öryrkjabandalagsins og ríkisins en vona ég að niðurstöður fáist í það mál sem allra fyrst, því að um mikilvægar kerfisbreytingar er að ræða.

Síðan þarf að halda áfram á þeirri vegferð sem hefur verið, að gefa betur í málaflokkinn og halda áfram.

Að lokum get ég ekki annað en rætt aðeins um tekjuöflun ríkisins og þá umræðu sem á sér stað um útgerðarfyrirtæki í landinu. Hér á landi eru margar mismunandi útgerðir og búa margar hverjar við mjög misjöfn rekstrarskilyrði. Við erum með risastórar útgerðir sem hafa alveg efni á að borga það veiðigjald sem sett er upp og hefur verið undanfarin ár á meðan við erum með litlar og meðalstórar útgerðir sem hafa minni efni á því og ráða ekki við það. Styrking krónunnar hefur einnig áhrif á þessar greinar og því hefur afkoma lítilla og meðalstórra sérstaklega veikst á undanförnum mánuðum. Hér er um að ræða afar sveiflukennda afkomu greinarinnar. Við hljótum öll að vera sammála um að við viljum hafa fjölbreyttar útgerðir í landinu okkar í dreifðum byggðum landsins. Margar þeirra eru byggðafesta lítilla bæja víða um landið og mikilvægt að þær verði það áfram og því þarf að taka tillit til mismunandi aðstæðna þeirra.

Það er nú svo að þegar við erum að ræða auðlindagjöldin finnst mér kominn tími til að skilgreina hugtakið auðlind, það hefur verið gert að einhverju leyti, og láta jafnframt aðrar greinar sem nýta auðlindir landsins bera þann kostnað auk útgerðarinnar. Það væri sanngjörn leið. Með þeim orðum lýk ég ræðu minni.