146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hér er að eiga sér stað afar sérkennilegar umræður við óvenjuleg pólitísk skilyrði sem eru með þeim hætti að fjármálaráðherra starfsstjórnar leggur fram tekjuöflunarfrumvarp við fjárlög ríkisstjórnar sem er í raun og veru farin frá. Okkur þingmönnum er nokkur vandi á höndum eins og fram hefur komið og maður hlustar þess vegna mjög vel eftir því hvernig fólk hagar orðum sínum í umræðunni og hvað það er sem fólk er í raun og veru að segja, vegna þess að við getum ekki með hefðbundnum hætti ætlast til þess eða gert ráð fyrir því að fólk falli í hefðbundna dilka.

Mig langar af þeim sökum að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi um álitamál sem hafa komið upp sem lúta að samgönguáætlun. Nú hafa þingmenn Norðvesturkjördæmis sammælst um að stíga fram og segjast vilja fá miklu skýrari línur að því er varðar Dýrafjarðargöng. Hv. þingmaður er einmitt úr umræddu kjördæmi þannig að ég spyr hana og vegna þess að hv. þm. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, hefur sagt að fjárlagafrumvarp ráðherrans sé nokkurs konar grunnur og á því þurfi síðan að byggja þótt við séum í nokkuð klemmdri stöðu að því er varðar tímann. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún sér annars vegar þetta tiltekna mál, þessa tilteknu framkvæmd og svo hins vegar samgönguáætlun alla, þ.e. þær breytingartillögur sem við öll á síðasta þingi sammæltumst um að styðja og ekki bara vegna þess að það væru kosningar í nánd, heldur vegna þess að við vitum það og ekki síst þingmenn úr dreifbýlli kjördæmum hversu æpandi þörfin er á auknu viðhaldi á vegum úti um land bæði í þágu atvinnuuppbyggingar og ekki síður byggðaþróunar og daglegs lífs.