146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar til þess að biðja hana að hafa það aðeins skýrara. Mig langar að biðja hv. þingmann um að svara því hvort hún telji að þær breytingartillögur sem þingheimur sammæltist um við samgönguáætlun hafi verið þess virði að standa við þær og hvort við eigum að einhenda okkur í það, þetta þing sem ekki lýtur neinu framkvæmdarvaldi, að fjármagna breytingartillögu við samgönguáætlun í núverandi fjárlagafrumvarpi og þá inn í bandorminn svokallaða hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé reiðubúin til þess að vera í þeim hópi þingmanna sem ætlar að freista þess að uppfylla okkar þinglegu skyldur að vera fjárveitingavaldið og að minna okkur öll á það að okkar er verkefnið og ekki nokkurra annarra, við getum ekki vísað á neina ríkisstjórn vegna þess að hún situr bara þarna af því hún getur ekki annað og við verðum að axla ábyrgð á þessu alla leið.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um heilbrigðismálin af því að hún talar um að þar þurfi að gera betur. Ég held að við séum öll sammála um það og við höfum öll sem eitt gengið fram í aðdraganda kosninga og talað um að við værum á ögurstundu gagnvart heilbrigðiskerfinu, að það þyrfti að leggja þar meira fé til. Nú er svo komið að enginn getur vísað inn í framtíðina þegar komið er að því að greiða atkvæði um fjárlagafrumvarp eða um tekjuöflunarfrumvarp. Því spyr ég hv. þingmann hvort hún telji það einnar messu virði að kanna hvort við eigum möguleika á því að styrkja tekjugrunna ríkissjóðs til þess að gera betur við íslenska heilbrigðiskerfið en kemur fram í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári, á árinu 2017. Ég vil minna hana á það að hv. þingmaður og ráðherra, Eygló Harðardóttir, sat hjá við ríkisfjármálaáætlun sem er sú spennitreyja sem við sitjum uppi með.