146. löggjafarþing — 3. fundur,  8. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[13:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er orðinn undarlegur plagsiður í þingsal að fara í andsvör við jómfrúrræður. Ég hlusta bara svo oft með athygli á hv. þm. Smára McCarthy að mér fannst þetta varla geta hafa verið jómfrúrræða. Mig langar að spyrja hv. þingmann einfaldra spurninga en þó grundvallarspurninga því að ræða hans fjallaði um grundvallaratriði. Hann varpaði fram gömlu stefi og nýju sem er það fyrir hvern kerfið er. Erum við að búa til gott samfélag fyrir fjármagnið eða gott samfélag fyrir fólkið? Þetta getur farið saman, segir hv. þingmaður, og á að gera það en við missum stundum sjónar af því, erum of upptekin af dálkunum og gleymum því að það er fólk með tilfinningar og væntingar, vonir og þrár, daga og nætur þarna úti sem hefur falið okkur það dýrmæta verkefni að huga að velferð þess og möguleikum til framtíðar.

Hv. þingmaður nefndi að í þessu frumvarpi og í báðum frumvörpunum værum við kannski að skilja fólk og hópa eftir. Hv. þingmaður nefndi aldraða, öryrkja og fátækt fólk. Eins og kunnugt er er Ísland því miður ekki til sóma að því er varðar stöðu fátæktar í samfélaginu. Á Íslandi eru 6.000 fátæk börn sem er kannski það eina sem við ættum að vera að tala um hér, að útrýma þeirri fátækt. Það ætti að vera okkar fyrsta verk vegna þess að það er okkur öllum til skammar. Vegna þess að hv. þingmaður var hér með jómfrúrræðuna sína langar mig að óska honum til hamingju með hana og spyrja hann einfaldrar spurningar: Hvernig eigum við helst núna undir þessari tímapressu að koma í veg fyrir að við skiljum fólk eftir?