146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á stöðuna eins og hún er núna almennt í samfélaginu, ekki síst í tengslum við mál sem við munum þó ræða hér síðar í vikunni og áfram í mánuðinum, sem eru fjárlögin. Við erum í þeirri stöðu að neyðarkall er komið frá mörgum mikilvægustu stofnunum landsins. Það skortir sárlega fjármuni í þá innviðauppbyggingu sem flestir ef ekki allir flokkar lofuðu með fögrum orðum fyrir kosningar. Það er ákall frá þjóðinni um umbætur í heilbrigðismálum. Tæplega 87 þúsund landsmenn, eða um 40% kjósenda, skrifuðu undir undirskriftasöfnun um að snarauka ætti útgjöld til heilbrigðismála upp í um 11% af vergri landsframleiðslu. Það eru umtalsverðir fjármunir. Þegar þeim undirskriftum var skilað tóku ráðamenn nokkuð vel í það að nú ætti aldeilis að fara að gera eitthvað í þessu. Flokkarnir létu í kosningum sem það væri vilji þeirra líka að setja umtalsverða fjármuni í þau mál.

Aldraðir og öryrkjar, staða þeirra. Ætlum við ekki að taka á henni? Ætlum við að láta eins og það sé eitthvað sem komi okkur ekki við hér í þingsal?

Landspítali, háskólarnir, framhaldsskólarnir, Landhelgisgæslan, Hafnabótasjóður, það er ákall alls staðar að í samfélaginu um að við setjum aukna fjármuni í það sem við sögðumst ætla að gera fyrir kosningar.

Samgönguáætlun. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson heyktist því miður á að sinna því sem þingið fól honum að gera, að finna fjármuni til að fjármagna hana. Það er verkefni okkar að fara í það allt. Aðeins á næsta ári þurfum við um 27,5 milljarða fyrir utan það sem tekur við eftir það. Ég fagna því að margir hv. þingmenn hafa bæði á samfélagsmiðlum og víðar talað um aukin útgjöld. Ég nefni hv. þm. Loga Einarsson, hv. þm. Benedikt Jóhannesson, hv. þm. Eygló Harðardóttur. Ég fagna því að samstaða sé að nást hjá okkur í þinginu (Forseti hringir.) um að bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs.


Efnisorð er vísa í ræðuna