146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að gefa gaum orðum hæstv. starfandi fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar á þingfundi í síðastliðinni viku þar sem fjallað var um svokallaðan bandorm vegna frumvarps til fjárlaga. Þar vék hann að umfjöllun nokkurra forstöðumanna ríkisstofnana í fjölmiðlum um fjárþörf eigin stofnana, taldi þær gagnrýnisverðar og hafði uppi nokkuð harkaleg orð um þessa gjörð. Ég nota þetta tækifæri hér til að gagnrýna hæstv. starfandi fjármálaráðherra fyrir afstöðu hans og ummæli. Ég tel að forstöðumönnum mikilvægra þjónustustofnana sé eðlilega heimilt og raunar skylt að upplýsa almenning um alvarlegan vanda sinna stofnana. Forstöðumennirnir hafa auðvitað rætt málefnið, brýna fjárþörf stofnana, við framkvæmdarvaldið, ráðuneyti sitt og við nefndir þingsins og rökstutt hana með ýmsu móti. Kjósi þeir að hafa almenning upplýstan við upphaf nýs kjörtímabils eða á meðan þing situr og lög um ríkisfjármál eru rædd er það hlutverk þeirra sem samfélagsþjóna að gera þjóðinni grein fyrir hvað við blasir. Okkur vantar gott hugtak, með leyfi herra forseta, við enska hugtakið „public servant“. Rétt eins og ég og hæstv. starfandi fjármálaráðherra eru t.d. spítalaforstjórar og rektorar samfélagsþjónar. Þeim ber að haga sem sér slíkir. Við vantreystum þeim ekki, er það? Og teljum ekki sjálfkrafa að þeir ýki fjárþörf eða fari með rangar tölur og reiðumst ekki þegar forstöðumenn stofnana sem skipta samfélagið gríðarmiklu máli eru í samtali við almenning um staðreyndir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna