146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

dagskrá fundarins og fundur í fjárlaganefnd.

[14:05]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill af þessu tilefni segja að á fundi með formönnum þingflokka í fyrri viku var rætt um það hvort ekki ætti að hafa á dagskrá fljótlega liðinn störf þingsins og sérstaklega tekið til þess að nýir þingmenn kynnu að hafa áhuga á því að nota sér þann dagskrárlið til að hefja málflutning á þingi. Hins vegar var ákveðið að gera það ekki í síðustu viku en það yrði þess í stað fyrst á fundi í þessari viku. Eitthvað hefur skolast til eða niðurstaðan ekki verið nógu skýr ef þetta hefur valdið misskilningi. Forseti biðst þá velvirðingar á því. En það var minn skilningur eftir þennan fund að við værum sammála um að þessi dagskrárliður yrði hafður með á dagskrá þegar fundum yrði fram haldið í þessari viku.

Varðandi fyrirhugaðan fund í fjárlaganefnd sem var skipulagður í gær vegna vinnunnar þar áður en fullljóst var hvort þingfundur yrði í dag þá hefur sú hefð oft verið við lýði við knappar aðstæður í störfum þingsins undir lok þinghalds að ef enginn nefndarmaður hreyfir andmælum séu ekki gerðar athugasemdir við að nefndarfundir geti skarast við þingfundi. Það byggir á því að allir séu sammála um það. Um leið og einhver hreyfir andmælum við því er það ekki gert. Þannig að ef mér ber að líta svo á að þessu sé andmælt þá verður að sjálfsögðu ekki þingfundur samhliða fjárlaganefndarfundi.