146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að bregðast aðeins við þeirri gagnrýni sem hefur verið höfð uppi á frumvarpið af hálfu félaga innan samtaka opinberra starfsmanna þar sem því er haldið fram að til þess að lífeyrisréttindi geti talist jafn verðmæt sé mikilvægt að þeir sem á sínum tíma, 1997, völdu A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fái að halda þeim réttindum óskertum. Á þetta hefur verið bent t.d. af Kennarasambandi Íslands og telja forsvarsmenn þar að þetta sé í raun og veru forsendubrestur fyrir þá sem völdu á sínum tíma A-deildina. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að bregðast við þessari gagnrýni. Í ljósi þess að Kennarasambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sambandið leggur til aðra leið, þ.e. að loka A-deildum LSR og Brúar fyrir nýjum sjóðfélögum og þannig verði ekki gengið á réttindi núverandi sjóðfélaga og er því haldið fram að þannig sé hægt að koma í veg fyrir að hækka þurfi iðgjöld inn í sjóðinn, langar mig líka að biðja hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir okkur. Var sú leið eitthvað rædd í samtali fjármálaráðuneytisins við þessi heildarsamtök?