146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hræddur um að við getum ekki botnað það nákvæmlega hvernig við munum fara í að jafna launin eða kjörin að öðru leyti. Launaskriðstryggingin er fyrirbæri sem þekkist annars staðar. Ég er bjartsýnn á að okkur takist að búa til fyrirkomulag sem líkist því sem tekist hefur að innleiða annars staðar þannig að sá þáttur málsins ætti kannski að vera auðveldari í útfærslu. Svo er það hitt: Geta menn komið sér saman um það hvað eigi að liggja til grundvallar þegar laun eru borin saman? Ég held að hv. þingmaður sé meðal annars að vísa til þess að það er ekki bara áralöng heldur kannski áratugalöng umræða hvað eigi að setja inn í þá jöfnu. Á til dæmis að setja lögin um opinbera starfsmenn, réttindi og skyldur, inn í þá jöfnu? Eða á bara að horfa á launaseðlana, heildarlaun? Hvað með önnur réttindi? Við verðum einfaldlega að leiða fram okkar besta fólk til að hjálpa til við þessa sérfræðivinnu (Forseti hringir.) sem hlýtur að þurfa að eiga sér stað til þess að við náum árangri í þessu.