146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:46]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör út af því að þetta er dálítið ruglingslegt. Það sem kemur fram í máli ráðherra, um það að þessar breytingar séu ekki gerðar á kostnað þeirra sem hafa áunnið sér réttindi, stangast á við það sem kemur fram í bréfi til þingmanna, sem við fengum í dag frá KÍ, um að gengið sé á réttindi núverandi sjóðfélaga og inngreiðslur. En eins og ég skil ráðherra þá hefur þetta að gera með hugsanlega áhættu og/eða ávinning sem er færður frá ríki yfir á sjóðfélagana.

Þetta er nú bara byrjunin á þessu samtali, þetta er 1. umr. Ég vonast til að við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fáum þessi félög til okkar á fund sem fyrst. Það er búið að boða þau á fund og þá komumst við betur til botns í þessu.