146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður les upp úr samkomulaginu vísar hann í það að menn eiga í dag rétt á jafnri réttindaávinnslu, jafnvel þótt menn séu komnir upp undir lífeyrisaldur og eins líka rétt á því að fara 65 ára á lífeyrisaldur. Við þá breytingu sem verður er því lofað af ríkinu að tryggja mismunun á þessu. Það er gert með tugmilljarða framlagi í sjóðinn. Þannig mun verða hægt að reikna stöðuna fyrir hvern og einn lífeyrisþega borið saman við eldra kerfi og mismunurinn verður alltaf bættur með viðbótarréttindum þegar við á. Það er sem sagt keyptur rétturinn af þessu fólki, keyptur rétturinn til þess að vera með jafna lífeyrisréttindaávinnslu alla starfsævina og það er keyptur rétturinn til þess að fara fyrr á lífeyrisaldur.

Varðandi það hvernig við höfum frekar komið til móts við þá gagnrýni sem kom fram á fyrra frumvarp þá verð ég að vísa til 60 ára reglunnar. Já, mér finnst hún skipta mjög miklu máli vegna þess að menn höfðu auðvitað eitthvað til síns máls þegar þeir sögðu: Sá sem er farinn á lífeyrisaldur fær ekkert fyrir það að réttindin hafi breyst varðandi lífeyrisaldurinn eða að menn séu komnir í aldurstengda ávinnslu vegna þess að hann er hættur að vinna sér inn réttindi. Það eina sem hann sér í raun og veru er að bakábyrgðin hverfur. Þetta er lagað. Þá er sagt: Þetta gildir líka fyrir þá sem eru alveg að fara á lífeyri. Þess vegna er farið alveg niður í 60 árin. Þeir sem eru þar undir eiga þá alltaf fyrir framan sig einhver ár í réttindaávinnslu sem geta komið til móts við skammtímasveiflur í ávöxtun sjóðanna.

Mér finnst ekki sanngjarnt að gert sé lítið úr mikilvægi þess að í framtíðinni munu menn njóta góðs af því ef ávöxtun sjóðanna er jákvæð í bættum lífeyrisréttindum vegna þess að þetta gengur í báðar áttir.