146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn að gera lítið úr einu eða neinu hér. Það er bara verið að spyrja hvort framlagt frumvarp og það sem var áður lagt fram í haust sé í samræmi við samkomulagið sem skrifað var undir. Þar voru engir óvissuþættir að ég fæ best séð.

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni um að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og einmitt þess vegna er miður að Alþingi Íslendinga sé í þeirri stöðu að samþykkja það á hlaupum, að ekki sé hægt að vinna betur að því. Eins og ég kom að í fyrri ræðu minni var nógu mikið blásið í lúðra þegar samkomulagið var kynnt. Hins vegar kom þar fram frumvarp sem aðilar samkomulagsins töldu ekki í samræmi við samkomulagið. Allt í einu var farið að tala um virka greiðendur í staðinn fyrir sjóðfélaga.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra beint út, óháð því hvort hann telji að verið sé að gera lítið úr mögulegri ávöxtun í framtíðinni eða skerðingu: Telur hann að sú regla sem hann vísar í sé í samræmi við það samkomulag (Forseti hringir.) sem hann og forystumenn launþegahreyfingarinnar rituðu undir á sínum tíma?