146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni gríðarlega mikilvægt mál sem skiptir miklu máli fyrir þróun þeirrar vinnu sem í gangi er á vinnumarkaði varðandi betri vinnubrögð, og er vonandi meira í takt við það sem við þekkjum annars staðar á Norðurlöndunum. Það er kannski tvennt sem ég hef helst áhyggjur af og langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í þegar kemur að frumvarpinu. Ég spyr annars vegar út í það sem snýr að samkomulaginu sjálfu, að kjarajöfnun, þ.e. að því að jafna kjör milli opinbera vinnumarkaðarins og þess almenna. Nú er hið svokallaða höfrungahlaup milli markaða vel þekkt vandamál hér og það er mjög umdeilt hvort yfir höfuð sé einhver launamunur milli markaða. Hvernig hyggjast menn standa að mælingu þar á og hvernig á að taka á þessu án þess að þetta verði einhver sjálfstæð uppspretta höfrungahlaups á vinnumarkaði? Í því samhengi er ágætt að hafa í huga að alla vega síðast þegar ég gáði voru opinberir starfsmenn hærri en starfsmenn á almennum vinnumarkaði í öllum tekjutíundum, samkvæmt yfirliti Hagstofunnar. Þá er spurning í hvora áttina launamunurinn liggur. Það er alla vega ekkert sjálfgefið í því.

Í öðru lagi, í ljósi þess að hér er einmitt um mikilvægt mál að ræða varðandi jöfnun lífeyrisréttindanna og þá þröskulda sem ólík lífeyriskerfi hafa sett upp á milli vinnumarkaða, skiptir miklu máli að vel takist til í þessu máli því að þetta mislukkaðist nú aðeins þegar lögunum var síðast breytt árið 1997. Það er ákvæði þarna sem ég hef áhyggjur af, í 7. gr. frumvarpsins sem snýr að X. bráðabirgðaákvæði, þ.e. hvernig tekið skuli á því ef hinn svonefndi lífeyrisauki dugir ekki, eins og það er orðað, þ.e. ef varúðarsjóðurinn getur ekki staðið við það hlutverk sem honum er ætlað að standa við. Nú er einmitt megintilgangur af hálfu ríkissjóðs með lögunum að afnema ríkisábyrgð og því spyr ég: Er hér áfram um dulda ríkisábyrgð að ræða?