146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að þetta mikilvæga mál sé komið aftur til þingsins og að Alþingi fái nú tækifæri til þess að fara vandlega yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu; meta hvort þær séu nægilegar og gera þær umbætur sem Alþingi telur að þurfi að gera. Þetta er mál sem við höfum mörg hver lengi borið fyrir brjósti vegna þess að það felur í sér samræmingu á lífeyrisréttindum á almennum markaði og á opinberum markaði. Breytingar á lífeyriskerfinu frá 1997, þegar A-deildin var sett á fót, hafa að flestu leyti gengið vel, en þar sem ekki er um aldurstengda ávinnslu að ræða hefur halli myndast á A-deildinni sem nú þegar er orðinn umtalsverður og fer vaxandi. Með breytingunni á kerfinu frá 1997 var gamla kerfið lagt af, sem nú er B-deild sjóðsins, og B-deildin er nú þegar með halla upp á um 500 milljarða kr. Það er óskaplega mikilvægt að við eigum lífeyriskerfi sem er sjálfbært, sem byggist á ávinnslu og eignum í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar þar sem þeim fer fjölgandi sem fara á eftirlaun og fækkar í yngri kynslóðum.

Unnið hefur verið að þessu máli frá árinu 2009. Unnið hefur verið að því að leita lausna sem gætu orðið til þess að samræma réttindin og binda enda á hallarekstur A-deildarinnar. Peningar sem við fáum vegna samninga við kröfuhafa gera það kleift að taka á málinu og setja inn fé til að strika út hallann. Niðurstaðan og farsæl lausn skiptir líka miklu máli fyrir sveitarfélögin. Ríkisstarfsmenn hafa áhyggjur af því að þeir séu að kasta frá sér réttindum út á óljósan ávinning.

Í því samkomulagi sem frumvarpið byggir á er gert ráð fyrir því að opinberir starfsmenn fái hlutdeild í launaskriði á almennum markaði. Ég er þeirrar skoðunar að betra sé að fara þá leið að bæta laun opinberra starfsmanna og hafa þau samkeppnishæf við almenna markaðinn, og auðvelda þannig fólki að fara á milli hins opinbera og hins almenna markaðar yfir starfsævina frekar en að reyna að búa til gulrót sem felst í betri lífeyriskjörum á hinum opinbera markaði. Það er líka betra að semja um úrlausn og endurgjald fyrir réttindi en að halda áfram hallarekstri á lífeyrissjóðum, því að á endanum mun sá tími koma að ef ríkið stendur frammi fyrir mörg hundruð milljarða gati, eða enn stærra gati en nú er, vaxi verkefnin okkur einfaldlega yfir höfuð. Þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa talið sig eiga gætu reynst orðin tóm vegna þess að samfélagið standi hreinlega ekki undir þeim.

Ég held þess vegna að allt mæli með því að feta áfram þennan veg og að Alþingi leggi sig fram við vinnslu frumvarpsins. Það skiptir líka miklu máli að skapa betri grunn fyrir kjaraviðræður í framtíðinni og að betra samræmi verði á milli launakjara á hinum almenna markaði og hinum opinbera.

Frú forseti. Ég vil ítreka og endurtaka að ég vona að vinnan við frumvarpið verði góð og að farsæl niðurstaða náist. Hún er vitaskuld ein forsendan fyrir friði á vinnumarkaði til lengri tíma, en það skiptir líka máli fyrir ríkisreikninginn að við náum að lenda málinu fyrir áramót. Staðan er þannig núna að við kæmum ekki út í mínus ef við gerum þetta á árinu 2016, en ef við tökum okkur lengri tíma og látum þetta detta fram yfir áramótin þá fáum við mínus í ríkisreikninginn. Þá þurfum við líka að endurskoða þær fjármálareglur sem við höfum sett okkur með lögum um opinber fjármál ætlum við ekki að láta það koma niður á ríkisrekstrinum í heild.

Ég vona því, frú forseti, að nefndin kalli inn alla hagsmunaaðila. Okkur hefur verið bent á að ekki hafi farið fram nægilegt samráð áður en málið kom hingað fyrir Alþingi að nýju og að sú gagnrýni sem sett var fram þegar málið kom hér á fyrri stigum standi enn. Það er mikilvægt að Alþingi og hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir þetta mál allt saman.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, en vil aðeins ítreka það að þetta mál er afar mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir kjör opinberra starfsmanna, fyrir lífeyrisréttindi þeirra og fyrir fólk á vinnumarkaði sem getur þá fært sig á milli kerfa án þess að tapa réttindum eða launum.