146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:24]
Horfa

Eva Pandora Baldursdóttir (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að benda á að í athugasemdum við c-lið 7. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Að gefnum áformuðum aðgerðum og sömu ávöxtun og verið hefur og óbreyttum aðferðum við mat á lífslíkum eru meiri líkur á að staða sjóðsins verði jákvæð …“

Ég vek athygli á því að hér gefum við okkur margar óþekktar stærðir og notumst við óbreyttar aðferðir við mat á lífslíkum. Lífslíkur þjóðarinnar og fólks í heiminum öllum eru sífellt að aukast og við verðum að taka almennilega tillit til þess. Ég tel það vera skammsýna hugsun að hækka alltaf bara lífeyrisitökualdurinn eða auka iðgjöldin í hvert sinn sem lífslíkur þjóðarinnar virðast vera að aukast.

Þetta frumvarp er búið til í kringum núverandi kerfi. Því er gagnrýni mín ekki beinlínis á frumvarpið í sjálfu sér heldur sú staða sem við erum í núna, þ.e. að við þurfum að leggja fram þetta frumvarp. Það segir okkur að kerfið virkar kannski ekki alveg. Það er alveg þess virði að velta því fyrir sér hvort hægt sé að fara einhverja aðra leið í lífeyrismálum.

Ég árétta að ég er ekki að leggja til að farið verði í einhverjar stórauknar kerfisbreytingar á lífeyrismálum fyrir áramót, það er einfaldlega ekki tími til þess. En ég tel að við ættum algerlega að hafa það í huga í framtíðinni og huga að varanlegri lausn í lífeyrismálum í nánustu framtíð.