146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:27]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Líkt og ég kom aðeins inn á í andsvari mínu áðan við ræðu hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar er ég sammála um að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál. Ég vil ítreka það sem ég kom inn á þá að það er miður að svo sé komið að við þurfum að afgreiða málið á einhverjum hlaupum til að ná því inn fyrir áramót. Þegar lagt var af stað með málið í haust, við skulum ekki gleyma því að þetta mál á sér mun lengri sögu, unnið hefur verið að þessu, þ.e. að jöfnun lífeyrisréttinda, árum ef ekki áratugum saman þannig að þegar af því bárust tíðindi í haust að nú hefði náðst samkomulag þá skal ég segja það fyrir mína parta að ég fylltist gleði og bjartsýni. Mér fannst það mikill áfangi sem hafði náðst í þjóðþrifamáli. Eins og fráfarandi ríkisstjórn hefur því miður of oft hætt til var þetta tilkynnt með töluverðum lúðrablæstri og bravúr og menn slógu sér dálítið mikið á brjóst yfir því hvaða árangur hefði náðst. Að vissu leyti var það skiljanlegt því að eins og ég kom inn á er málið gríðarlega mikilvægt. Það voru hins vegar enn sárari vonbrigðin þegar frumvarp hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar leit svo dagsins ljós á þinginu í haust. Það var samdóma álit fjölmargra þeirra launþegahreyfinga sem að samkomulaginu komu að frumvarpið væri ekki í takt við það samkomulag sem skrifað hafði verið undir. Það eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð að skrifa undir samkomulag um eitt en leggja fram frumvarp um annað.

Það sem helst þótti gagnrýnisvert þá var það sem ég kom aðeins inn á áðan í andsvari mínu að í frumvarpi um þessi mál var allt í einu farið að tala um virka greiðendur. Það hugtak hafði ekki sést í samkomulaginu. Þar var einfaldlega talað um sjóðfélaga. Þannig að hér hafði ráðherra þrengt skilgreininguna á því hverjir ættu að njóta þess að réttindi þeirra væru varin fyrir mögulegum breytingum fram í tímann. Það var gert einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar fráfarandi.

Það er sérstaklega miður í svona stóru máli, í þjóðþrifamáli sem verður að nást í sátt við sem flesta, að þetta skuli hafa farið svona, ekki síst í þessu máli af því að það byggist svo mikið á trausti. Hér er stór hluti launþega að gefa eftir réttindi sín, gefa það eftir að öðlast lífeyristökuréttindi 65 ára og seinka því til 67 ára aldurs gegn því að fá launahækkanir á móti í framtíðinni. Eins og komið var inn á í umræðunum áðan var ekkert fast í hendi með það. Ekki er til útfærð áætlun um hvernig þeim launahækkunum verður komið á heldur byggir þetta eingöngu á því að aðilar treysti hver öðrum. Það er því býsna mikilvægt að gera ekki neitt sem rýrir það traust og býsna alvarlegt strax örfáum vikum síðar að gera það traust að engu þegar fram kom frumvarp sem var ekki í takt við samkomulagið. Síðan hefur verið unnið enn frekar að frumvarpinu og eins og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson kom inn á að einhverju leyti komið til móts við sjónarmið opinberra starfsmanna.

Það er hins vegar ekki þannig að opinberir starfsmenn líti svo á að það sé að öllu gert, að samkomulagið sem þeir rituðu undir á sínum tíma endurspeglist fullkomlega í þessu frumvarpi, eða kannski öfugt, að frumvarpið endurspeglist í samkomulaginu, því að staðan er enn þá þannig miðað við frumvarpið að þeir sjóðfélagar sem eiga réttindi í A-deild hafa ekki tryggingu fyrir því að greiðslur þeirra muni ekki skerðast í framtíðinni, þ.e. ekki allir sjóðfélagar. Búið er að setja þau mörk að það miðist við 60 ára aldur, sem er betra og framför frá hinu fyrra frumvarpi en ekki það sem um var rætt í samkomulaginu. Þar var einfaldlega talað um alla sjóðfélaga, þ.e. að þeir yrðu varðir fyrir mögulegum skaða. Í því skyni var komið upp lífeyrisaukasjóði og varúðarsjóði honum til hliðar til að standa undir honum sem ætti að bæta mönnum upp mismunandi réttindi sem nýja fyrirkomulagið gæfi miðað við núverandi fyrirkomulag. Þetta tengdist jafnri ávinnslu yfir í aldurstengda breytingu þar á, hækkun lífeyristökualdurs og fleira í þeim dúr.

Það virðist vera einhver misskilningur hjá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni að opinberir starfsmenn hafi talað um að réttindi starfsmanna í A-deildinni í dag myndu ekki skerðast heldur færu nýir starfsmenn inn í nýtt fyrirkomulag og þar væru minni réttindi. Það er ekki það sem opinberir starfsmenn skrifuðu undir á sínum tíma.

Hvað er það sem getur gerst? Sjóðurinn getur lent í mjög lélegri ávöxtun ár eftir ár. Það þarf ekki að leita langt aftur í söguna til að finna slíkar aðstæður. Á hinum almenna markaði leiðir það til þess að réttindin skerðast einfaldlega. En eins og fyrirkomulagið er núna með opinbera starfsmenn er iðgjaldið hækkað til að koma til móts við þá. Þetta er eitt af því sem hinn almenni vinnumarkaður hefur gagnrýnt mjög þegar kemur að þessum mismunandi réttindum. Frumvarpið átti að taka á að jafna þar á milli.

Hins vegar, eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum, er það ekki þannig að þegar opinberir starfsmenn skrifuðu undir þetta væru þeir að gefa blankan tékka varðandi það að þetta gæti orðið að veruleika fyrir þá sjóðfélaga sem þegar ættu réttindi í sjóðnum í A-deildinni. Það var bara alls ekki þannig. Það er alveg sama hvað hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talar um að þetta eða hitt hafi náðst og að við eigum ekki að tala þetta niður, það breytir því ekki að frumvarpið er ekki í samræmi við það sem aðilar töldu sig vera að skrifa undir þegar að samkomulaginu kom.

Ríkið eða ríkisvaldið hefur talað um að það ætli að verja hópinn frá 60 ára aldri fyrir mögulegum skaða. Það er vel. En það eru ekki allir sjóðfélagar. Ég sat ekki á hv. Alþingi fyrir síðustu kosningar og ég veit ekki hvernig á því stendur að í því frumvarpi sem þá var lagt fram hafi allt í einu komið inn það orðalag að tala um virka greiðendur. Ég veit hins vegar að afleiðingin af því er mjög alvarleg. Afleiðingin af því er sú að traustið sem nauðsynlegt er í þessu máli er skert. Vonandi ekki horfið með öllu. Ég veit til þess að einhver samtöl hafa átt sér stað á milli ríkisstjórnar og ráðherra og aðila vinnumarkaðarins. Hins vegar er þetta frumvarp sem er nú lagt fram eingöngu á ábyrgð ríkisstjórnar eins og eðlilegt er. Ég sakna þess að fá frekari útskýringar á þessum mismun. Það er eins og ég sagði áðan býsna alvarlegt að skrifa undir eitt og leggja svo fram frumvarp um annað.

Að öllu þessu sögðu er þetta mál, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, gríðarlega mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að við vöndum okkur vel við hvernig við gerum þetta á þeim stutta tíma sem við því miður höfum, allt of stuttan tíma fyrir svo mikilvægt mál, en það er á ábyrgð okkar þingmanna í þessum meirihlutalausu aðstæðum sem við búum við, hvers og eins, að kafa djúpt ofan í þetta mál og heyra í aðilum þessa samkomulags. Við höfum fengið að heyra í einum aðila samkomulagsins sem skrifar undir, þ.e. hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, en það er á ábyrgð okkar allra að heyra í öðrum aðilum. Ég veit til þess að fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd verða kallaðir þeir sem að samkomulaginu komu, en það er líka okkar þingmanna að kynna okkur sjónarmiðin, því að það erum við sem á endanum munum þurfa að greiða málinu atkvæði okkar. Þetta er mál sem hefði getað verið unnið alla leið í góðri sátt. Traust hafði skapast. Menn voru tilbúnir að treysta töluvert inn í framtíðina og gefa eftir ákveðin réttindi fyrir mögulegan ávinning.

Ég brýni okkur öll hér inni og þau sem ekki eru hér inni, sem eru sennilega fleiri akkúrat þessa stundina, að sýna ábyrgð í málinu, skoða allar hliðar þess og vinna hratt og örugglega að því að það frumvarp sem á endanum verður að lögum sé í samræmi við samkomulagið sem skrifað var undir í haust.