146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um kjararáð. Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana embættismanna, forstöðumanna og annarra þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs sem felst í því að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör.

Markmið frumvarpsins er annars vegar að fjölga þeim aftur sem taka laun samkvæmt kjarasamningum á venjulegan hátt og hins vegar að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra en nú er.

Í 74. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stéttarfélög. Þá segir í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þessi ákvæði þarf síðan að skýra í ljósi alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt eða fært í lög. Þar ber helst að nefna mannréttindasáttmála Evrópu, en félagafrelsið er tryggt í 11. gr. hans.

Í 74. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram sú regla sem tryggir öllum borgurum frelsi til aðildar að félagasamtökum sem stofnuð eru í löglegum tilgangi. Stéttarfélög eru þar sérstaklega nefnd til sögunnar og sýnir það hversu mikilvæg starfsemi stéttarfélaganna og frelsi þeirra til athafna er í huga stjórnarskrárgjafans.

Eitt af mikilvægustu hlutverkum stéttarfélaga er að standa að gerð kjarasamninga. Stéttarfélögum opinberra starfsmanna er með lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna markaður almennur rammi um starfsemi sína. Þar er rakið hlutverk félaganna og settar reglur um mikilvægustu þættina í starfsemi þeirra. Er þar m.a. að finna tæmandi talningu þeirra skilyrða sem félögin þurfa að fullnægja til að mega starfa og þau skilyrði að þau geti beitt heimildum sínum að lögum.

Rétturinn til að semja um starfskjör er hins vegar verndaður berum orðum í 75. gr. stjórnarskrárinnar þótt því sé síðan vísað til löggjafans að útfæra nánar hvert inntak þess réttar skuli vera. En þrátt fyrir réttinn til að semja um starfskjör hefur löggjafinn þó talið þörf fyrir lögskipaðan úrskurðaraðila um launakjör sumra þeirra sem svo háttar til að launakjörin geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu. Þau rök sem hafa verið færð fyrir því að hafa lögbundinn úrskurðaraðila eru í meginatriðum tvenns konar: Annars vegar er um að ræða þjóðkjörna menn og æðstu handhafa framkvæmdarvalds og dómsvalds og hins vegar er um að ræða menn sem gegna störfum sem ekki fylgir samnings- eða verkfallsréttur vegna eðlis starfanna, ýmist af öryggisástæðum eða vegna þess að þeir eru í fyrirsvari fyrir ríkið og þá fyrst og fremst í kjaramálum.

Þegar metið er hverra launakjör skuli ákveðin af lögbundnum úrskurðaraðila er rétt að hafa í þeim hópi eingöngu æðstu ráðamenn þjóðarinnar, dómara landsins og saksóknara vegna sérstöðu þeirra samkvæmt stjórnarskránni og tiltekna embættismenn sem eðlis starfsins vegna njóta sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Rökin fyrir þessari skipan eru þau að óeðlilegt sé að framkvæmdarvaldið fjalli um launakjör viðkomandi. Þróun síðustu ára hefur verið í átt til aukinnar miðstýringar og of mikils fjölda þeirra sem undir ákvörðunarvald kjararáðs falla umfram það sem ástæða er til vegna eðlis starfa og sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Í þessu sambandi er ekki einungis verið að vísa til þeirra breytinga sem urðu hér eftir fjármálahrunið heldur að yfir lengra tímabil hafi þróunin verið í þessa áttina. Með félaga- og samningsfrelsið að leiðarljósi er það meginmarkmið sett í frumvarpinu að fækka verulega þeim sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör og að þau ráðist af samningum á venjulegan hátt eftir því sem við verður komið vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu eru því lagðar til nokkrar breytingar á lögum um kjararáð og fleiri lögum til samræmis við þær breytingar sem gerðar eru á lögunum um kjararáð. Í fyrsta lagi að það verði eingöngu verkefni kjararáðs að ákvarða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, saksóknara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og þeirra embættismanna í Stjórnarráði Íslands sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, forsetaritara, seðlabankastjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara.

Í öðru lagi að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra taki mið af kjarasamningum á venjulegan hátt, þ.e. kjarasamningum Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, og að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu.

Í þriðja lagi að sérstakri starfseiningu sem starfar á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að ákvarða nánari grunnlaunaflokkun og undirflokkun starfa auk forsendna fyrir greiðslu viðbótarlauna en hlutaðeigandi ráðherra eða stjórn ákvarði undirflokkun og viðbótarlaun á grundvelli forsendna sem sérstaka starfseiningin setur þar sem Félagi forstöðumanna ríkisstofnana verði gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um álitamál sem upp kunna að koma vegna flokkunar starfa og forsendna viðbótarlauna, þ.e. að þessari sérstöku starfseiningu verði falið þetta hlutverk.

Í fjórða lagi að ákvörðun kjara framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og framkvæmdastjóra félaga sem eru í eigu hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins verði færð aftur til viðkomandi stjórna þar sem stjórnin semur á venjubundinn hátt um laun og starfskjör framkvæmdastjóra á grundvelli starfskjarastefnu félagsins og settrar eigandastefnu ríkisins í félögum.

Í fimmta lagi að ákvörðun kjara biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan þjóðkirkjunnar en fari ekki eftir ákvörðun kjararáðs ef um það fyrirkomulag semst á milli ríkis og þjóðkirkjunnar, samanber samkomulag ríkis og þjóðkirkju frá 1997 og 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar; sem sagt að takist um það samkomulag fari um ákvörðun kjara þessara aðila, biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta, samkvæmt samkomulaginu en ella verði þeir sem hér eru upp taldir áfram undir kjararáði.

Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er því að breyta fyrirkomulagi launaákvarðana þannig að þeim fækki verulega sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt fækkar þeim sem falla undir ákvörðunarvald kjararáðs samkvæmt frumvarpinu um 430 en eftir stæðu um 150, þar af 63 alþingismenn og 64 dómarar. Í þessum tölum er þá verið að gefa sér að samkomulag takist við þjóðkirkjuna. Takist það ekki verða þeir sem hér voru upp taldir áfram inni í því fyrirkomulagi sem í dag gildir, þ.e. þeir munu taka laun og njóta starfskjara samkvæmt ákvörðun kjararáðs og það mundi hafa áhrif til hækkunar á þeim fjölda sem ég nefndi.

Hvað varðar launaákvarðanir þeirra aðila sem ekki heyrðu lengur undir ákvörðunarvald kjararáðs er einkum horft til þess að þeir hópar sem geti samið um sín kjör fái þann rétt aftur en þeir sem ekki geti samið um sín kjör fari undir svipað launafyrirkomulag og var í Noregi fram til ársins 2015 en það fyrirkomulag hafði verið í notkun frá árinu 1991. Norska kerfið byggðist upp á fimm grunnlaunaflokkum og fjórum undirflokkum auk tímabundinna viðbótarlauna. Hér er um nokkuð tæknilegt mál að ræða í þessu launakjarasamkomulagi en í stuttu máli má segja að laun fyrir starf ráðist af því í hvaða grunnlaunaflokk og undirflokk starf raðast og launin eru síðan uppfærð árlega. Nánari útfærsla er útskýrð í greinargerð með frumvarpinu en það má segja að 2/3 starfanna í norska kerfinu hafi flokkast í grunnlaunaflokk A og B. Síðan var ákveðin verkaskipting milli ráðuneyta um þessi efni. Um þetta eru til ítarlegar úttektir sem hægt er að styðjast við í frekari umfjöllun um nákvæma útfærslu. Ég leyfi mér að vísa nánar um þetta í greinargerð með frumvarpinu.

Ég vil engu að síður fjalla stuttlega um þá sérstöku starfseiningu sem ég vék að í mínu máli en samkvæmt frumvarpinu verður sérstakri starfseiningu falið fyrir hönd ráðherra að ákvarða fjölda grunnlaunaflokka starfa, á hvaða forsendum sú grunnlaunaflokkun byggir og til hvaða grunnlaunaflokks einstöku starfi verður skipað, hvaða forsendur eru fyrir frekari undirflokkun og fyrir greiðslu viðbótarlauna. Samkvæmt hugmyndinni og frumvarpinu er það hlutaðeigandi ráðherra sem ákvarðar síðan, eða eftir atvikum hlutaðeigandi stjórn, sem ákvarðar undirflokkun forstöðumanns og viðbótarlaun hans á grundvelli þeirra forsendna sem sérstaka starfseiningin hefur sett.

Ég hef sömuleiðis stuttlega vikið að því að gert er ráð fyrir því að Félagi forstöðumanna ríkisstofnana verði gefinn kostur á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um álitamál sem upp kunna að koma. Þetta er mikilvægt við breytingu sem þessa og eftir því kallað af félaginu að haft sé samráð um slíka þætti. Það er rétt að hafa í þeim hópi þá embættismenn sem ekki njóta sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu og forstöðumenn ríkisstofnana sem birtir eru á forstöðumannalista ár hvert samkvæmt 2. mgr. 22. gr. starfsmannalaga þegar metið er hverra launakjör skuli fara eftir nýju fyrirkomulagi.

Í frumvarpinu er sú leið valin að leggja til breytingar á starfsmannalögum þar sem sérstakri starfseiningu er falið að ákveða þetta fyrir hönd ráðherra. Við samningu ákvæða um nýtt launafyrirkomulag hefur verið stuðst við tillögur starfshóps um vinnuumhverfi forstöðumanna. Starfshópurinn skilað tillögum um það efni og hafði þar fjallað um stöðu, starfsskilyrði og kjör forstöðumanna; skilaði reyndar fyrir nokkrum árum tillögum sínum til ráðuneytisins. Það hefur verið horft til þessa og einnig til tveggja skýrslna Ríkisendurskoðunar um mannauðsmál ríkisins sem komu út fyrir nokkrum árum undir heitunum Mannauðsmál ríkisins – 1. Starfslok ríkisstarfsmanna og Mannauðsmál ríkisins – 2. Stefna stjórnvalda og staða mannauðsmála ríkisins.

Það er óhætt að segja að nokkur þrýstingur hefur verið á að gerðar væru breytingar til að auka sveigjanleika í þessum efnum á undanförnum árum og að nokkru er komið til móts við það hér.

Ég vil síðan koma að því að í frumvarpinu er lagt til að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu og sendiherrar verði ekki lengur undir ákvörðunarvaldi kjararáðs eins og ég hef rakið. Það er rétt að geta þess sömuleiðis að til samræmingar við það er lagt til að kjör aðstoðarmanna ráðherra taki mið af kjörum skrifstofustjóra samkvæmt kjarasamningum.

Svo er í frumvarpinu lagt til að ákvörðun um laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga verði aftur færð til viðkomandi stjórna. Ég tel það fullkomlega eðlilegt. Það má segja að það hafi ávallt verið hugsað sem tímabundin ráðstöfun að færa starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga undir kjararáð en það var gert við fall fjármálafyrirtækjanna og í samhengi við aðrar breytingar sem voru gerðar og færðar undir kjararáð til ákvörðunar. En það er orðið tímabært að stjórnir taki aftur við því sjálfsagða hlutverki að semja um starfskjör framkvæmdastjóra.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál flokkast starfsemi og verkefni ríkisins í A-, B- og C-hluta. Gengið er út frá því í frumvarpi þessu að skipting samkvæmt lögum um opinber fjármál ráði því hvort viðkomandi fari undir nýtt fyrirkomulag eða ekki. Forstöðumenn í A-hluta og forstjórar í B-hluta fari undir nýtt fyrirkomulag en framkvæmdastjórar félaga í C-hluta fari hins vegar undan ákvörðunarvaldi kjararáðs og stjórnir félaganna látnar taka aftur ákvörðun um laun og starfskjör þeirra.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að færa ákvörðun um laun forstjóra Landsvirkjunar aftur til stjórnar og er þar gengið út frá því að skipting samkvæmt lögum um opinber fjármál ráði því en Landsvirkjun flokkast undir C-hluta. Er þetta í samræmi við það sem lagt er til varðandi framkvæmdastjóra hlutafélaga í meirihlutaeigu ríkisins. Jafnframt er lagt til að stjórnin setji starfskjarastefnu og má þar hafa hliðsjón af 79. gr. a hlutafélagalaga. Í þessum efnum er sömuleiðis ástæða til að minna á eigandastefnu ríkisins í hlutafélögum og sameignarfélögum en þar kemur fram að kjarni eigandastefnu ríkisins byggir á því að félög í eigu ríkisins séu rekin með faglegum og gagnsæjum hætti þannig að almennt traust ríki á stjórn og starfsemi þeirra. Ég sæi fyrir mér að við þá breytingu sem myndi leiða af samþykkt þessa frumvarps yrði það áréttað með sérstöku bréfi til viðkomandi stjórna að ríkið hygðist ekki vera leiðandi í þróun starfskjara. Á sama tíma væri lögð áhersla á að hægt væri að semja um samkeppnishæf laun til að tryggja að til þessara verkefna væri hægt að ráða á hverjum tíma hæfa og öfluga einstaklinga.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa almennt til eigandastefnunnar um þessi atriði. Þar er margt sem hafa mætti til hliðsjónar í þessu samhengi. Varðandi hlutafélögin er fullkomlega eðlilegt í þessu samhengi að stjórnir félaganna gæti að því að hafa starfskjarastefnu sem samrýmist eigandastefnu ríkisins. Ég hef hér rakið að það er háð því að samkomulag takist við þjóðkirkjuna að breyting verði gerð á núverandi skipan um ákvörðun launa presta og það verður að ráðast í framhaldinu hvort af slíku samkomulagi verður. Í frumvarpinu er lögð til breytt skipan á ákvörðun launa þessara aðila en með ákvæði til bráðabirgða er lagt til að ákvörðun launa innan þjóðkirkjunnar heyri undir kjararáð þar til samkomulag næst. Það má segja að það sé þess vegna allsendis óvíst með þetta en þær viðræður hafa samt sem áður verið lifandi.

Ég vil að lokum nefna að löggjafinn hefur í nokkrum tilvikum ákveðið aðra framkvæmd á launaákvörðun tiltekinna embættismanna sem eðlis starfsins vegna njóta sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Rökin fyrir þessari skipan eru að ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um launakjör viðkomandi embættismanna. Um kjör þeirra embættismanna hefur því verið fjallað í sérlögum. Þessir embættismenn eru nú ríkissaksóknari og umboðsmaður Alþingis. Ekki er gert ráð fyrir breytingu hvað þessa embættismenn varðar.

Ég vil að síðustu láta þess getið að á þeim tíma sem ég hef starfað á Alþingi hefur allnokkrum sinnum komið til þess að gripið hefur verið inn í ákvarðanir sem teknar hafa verið á grundvelli sérlaga um þessi efni. Þar má kannski fyrst minnast þess þegar Alþingi ákvað að grípa inn í ákvarðanir Kjaradóms á sínum tíma en það var undir lok árs 2005. Þá lágu fyrir ákvarðanir sem sættu gagnrýni og þingið sá sig knúið til að bregðast við til að skapa frið á vinnumarkaði og kannski setja gott fordæmi.

Það hefur verið lærdómsríkt ferli að fylgjast með því hvernig úr slíkum inngripum hefur almennt spilast og síðan í framhaldinu hvernig þingið hefur í öðrum tilvikum viljað grípa inn í þróun kjara sem kjararáð hefur ákveðið. Kjararáði var komið á fót í framhaldi af því að gerðar voru breytingar á Kjaradómi. Það má segja að á árunum 2008–2009 hafi hugsunin verið sú hjá Alþingi annars vegar að skapa grundvöll fyrir sátt á vinnumarkaði, með svipuðum hætti og átti við 2005, að senda út skilaboð um að nú væru ekki tímar eða aðstæður til mikilla launahækkana og þess vegna var farið í æðstu embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja og laun þeirra beinlínis lækkuð og í framhaldinu var launafrysting hjá öllum þeim sem heyrðu undir kjararáð eftir lækkun. Ég minnist þess að á þeim tíma var því haldið opnu að komið gæti til þess að launin yrðu lækkuð enn frekar, sem sýnir hversu svartsýnir menn voru á þeim tíma. Því var alveg haldið opnu varðandi almenna markaðinn, eftir atvikum, í kjarasamningum var gert ráð fyrir lækkun launa til að bjarga störfum. Svo svartsýnir voru menn á horfurnar á þeim tíma. En sem betur fer var það nú ekki það sem gerðist. Það sem gerðist var að það kom aðeins hik á þá jöfnu hækkun sem hafði verið á árunum á undan, bæði á almenna og opinbera markaðnum, en síðan hefur verið talsvert mikil hækkun og hún hefur verið því sem næst viðstöðulaus og á sama tíma gilti frystingin fyrir þá sem heyrðu undir kjararáð. Þetta leiddi á endanum til þess að það varð töluvert mikil gliðnun hjá þeim sem áður höfðu fylgst að í launaþróun. Það varð gliðnun á milli þeirra hópa sem heyrðu undir kjararáð og voru fyrst beinlínis lækkaðir í launum og síðan frystir, og hinna sem tóku laun samkvæmt samningum.

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að hafa í huga að því var aldrei breytt sem segir í lögum um kjararáð, að kjararáði beri að ákvarða þeim sem undir það heyra laun sem eru sambærileg við það sem gerist hjá þeim sem gegna viðlíka ábyrgð eða stöðu í samfélaginu. Kjararáði er ætlað að fylgjast með launaþróun í landinu og haga ákvörðunum sínum í samræmi við það. Það er gott að muna það sem ég vék að í upphafi míns máls í því samhengi, hversu mikilvægur réttur er tekinn af þeim sem heyra undir kjararáð til þess að semja um kaup og kjör og eðlilegt að í lögum sé þess vegna að finna ákvæði sem tryggir einhvers konar vernd eða skapar fyrirkomulag þar sem gengið er úr skugga um að menn njóti kjaraþróunar í landinu og álíka kjara í flestu samhengi og gerist hjá þeim sem hafa ámóta stöðu, viðlíka ábyrgð o.s.frv.

Það má sömuleiðis rifja upp að það var aldrei í umræðunni á sínum tíma þegar þessar breytingar voru gerðar minnst á að það væri sjálfstætt markmið með inngripinu að grípa inn í hlutfallslega stöðu þeirra sem heyra undir kjararáð borið saman við aðra hópa, að það væri með einhverjum hætti markmiðið að draga niður kjör þeirra sem heyrðu undir kjararáð borið saman við aðra, heldur var út frá því gengið að það væri eingöngu verið að setja fordæmi og ganga á undan þróun sem án vafa yrði óhjákvæmileg annars staðar. Við skulum hafa það í huga að þetta var á sama tíma og við höfðum tekið upp gjaldeyrishöft. Við rákum ríkissjóð með hundruð milljarða halla. Við vorum í óðaönn við að endurreisa fjármálakerfið, gengið var til snemmbúinna kosninga o.s.frv. Allt verður þetta að skoðast í því ljósi.

Það má kannski segja að frá þessum tíma hafi ástandið á vinnumarkaði svo sem ekki verið rólegt, þrátt fyrir að kjörin hafi smám saman verið að batna. Það er af ýmsum ástæðum. Annars vegar má vísa í mjög vaxandi skuldir heimilanna vegna almennrar notkunar verðtryggingar á Íslandi. En augljóslega dró líka við fall krónunnar mjög úr kaupmætti og menn hafa verið að reyna að vinna hann til baka með launahækkunum. Það hefur ekki verið mikil sátt á vinnumarkaði um það hvernig ætti að fara í gegnum þetta. Stöðugleikasamkomulagið sem gert var á sínum tíma brast. Við höfum séð vinnudeilur hjá mörgum félögum á undanförnum sex, sjö árum.

En kjararáð býr við þá lagaskyldu að ákvarða laun þeirra sem undir það heyra með hliðsjón af stöðu annarra. Þegar frostinu aflétti sem ákveðið var með lögum stóð kjararáð frammi fyrir dálítið snúinni stöðu. Það hafði orðið töluvert mikil gliðnun en á sama tíma var mjög viðkvæmt ástand á vinnumarkaði. Það var þess vegna úr vöndu að ráða. Það er að sjálfsögðu þannig að kjararáði er hvergi ætlað að skapa ófrið á vinnumarkaði og hefur í ákvörðunum sínum án vafa reynt að ganga þannig fram að sem mest sátt gæti tekist um ákvarðanir þess. En það er ekki einfalt mál við þær aðstæður sem hafa verið á vinnumarkaði undanfarin ár. Ég held að það sé mikilvægt þegar við horfum til baka á þá þróun sem hefur orðið í kjölfar inngripa löggjafans í störf kjararáðs og ákvarðanir þess að við veltum því fyrir okkur hversu oft og hversu afgerandi þingið getur yfir höfuð skipt sér af niðurstöðum kjararáðs.

Ég ætla að leyfa mér að benda á eitt í því sambandi. Það er auðvitað gríðarleg kjararýrnun fólgin í því einu og sér að sitja eftir meðan allir aðrir hækka í launum. Það bil hefur í sjálfu sér aldrei verið bætt af kjararáði. Nú skulum við leyfa okkur að horfa á alla aðra en þá sem sitja hér á löggjafarþinginu. Það eru nefnilega margir aðrir, eins og dómarar, sem á sínum tíma fóru í dómsmál til þess að láta reyna á sinn rétt í þessu efni og höfðu betur. Það er í mínum huga alveg óumdeilanlegt að hvað sem líður nýlegum ákvörðunum kjararáðs er hópur sem liggur óbættur hjá garði vegna þess tíma þegar launin voru undir frosti.

Allt þetta hefur fengið mig til að sannfærast um það að þinginu beri fyrst og fremst skylda til þess að gera eitt, að koma sanngjörnum, gagnsæjum reglum í lög fyrir kjararáð að fylgja. Í þessu frumvarpi er reynt að skerpa á slíkum reglum, m.a. um gegnsæi ákvarðana, rökstuðning fyrir ákvörðunum, heimildir fyrir kjararáð til að láta ákvarðanir fylgja heildarsamningum á markaði og kjarasamningum, þróun þeirra, að ákvarðanir séu teknar oftar og reglubundið o.s.frv. Sem sagt: meira gagnsæi, meiri kvöð um rökstuðning og reynt að sporna gegn því að það líði of langur tími milli ákvarðana. En í mínum huga er það almennt séð algert óráð að þingið geri síðan, þegar niðurstaða er fengin hjá kjararáði með úrskurði, efnislegar athugasemdir og geri breytingar á slíku. Með því er eingöngu verið að kalla yfir sig vandamál sem þarf að leysa þá úr einhvern tíma seinna. Þetta segi ég eftir að hafa horft á þetta gerast ítrekað í þinginu.

Það er mín skoðun að það hafi verið góður ásetningur í upphafi með því inngripi sem var hér fært í lög í hruninu. En málið var hins vegar ekki hugsað til enda. Við höfum lent í miklum vandræðum með að fylgja því eftir allt fram á þennan dag. Þetta er hluti af ástæðunni fyrir því að ég legg aftur þetta frumvarp. Það breytir því hins vegar ekki að ég tel að þingið hafi skyldu til að hlusta eftir þeim sjónarmiðum sem hafa fram komið. Ég tel að það séu fleiri leiðir til þess en að vinda ofan af úrskurðum kjararáðs. Til að mynda að við skoðum í ljósi nýrra úrskurða kjararáðs kjör þingmanna heilt á litið og skoðum þann þáttinn sem við höfum stjórn á frá þinginu með öðru en lögum um kjararáð eða með því að grípa inn í úrskurði ráðsins.

Þetta eru ekki í öllum atriðum einföld mál að fjalla um. Þau vekja oft upp miklar tilfinningar. Það er óþægilegt að fjalla um sín eigin kjör. Þess vegna segi ég: Við eigum aldrei að þurfa að vera í þeirri stöðu. Það er nú tilgangurinn með lögunum og því fyrirkomulagi sem hefur gilt. Sú staða er beinlínis óeðlileg. Það gildir þá í báðar áttir þótt frá þeim tíma sem ég kom inn á þing hafi menn fyrst og fremst verið í því að draga úr kjörum þingmanna með þeim inngripum sem ég hef vísað til. Síðan má halda því fram að breytingar á lífeyrisréttindum þingmanna og ráðherra hafi allar verið á einn veg þegar saman er tekið, til að draga úr þeim.

Ég vonast til þess að þetta mál sem er borið upp af flestum formönnum stjórnmálaflokka (Forseti hringir.) geti fengið góða efnislega umræðu um. Við þurfum að setja það síðan í samhengi við hvað hægt er að gera í forsætisnefnd. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.