146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

breyting á ályktun Alþingis um rannsókn á kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

9. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á ályktun Alþingis nr. 40/145, um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

Tillöguna flyt ég fyrir hönd forsætisnefndar Alþingis og áheyrnarfulltrúa Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Í henni felst að rannsóknarnefnd sú sem Alþingi skipaði 2. júní sl., til þess að rannsaka þátttöku þýsks banka í kaupum á nefndum eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands, skuli ljúka rannsókn sinni svo fljótt sem verða má í stað þess að henni skuli ljúka fortakslaust eigi síðar en 31. desember nk.

Rannsóknarnefndin hefur í samræmi við 2. mgr. 12. gr. laga um rannsóknarnefndir gert forseta Alþingis grein fyrir framgangi rannsóknarinnar. Kemur þar fram að nefndin hafði ráðgert, sem lokaþátt í rannsókn sinni, að boða tilgreind vitni til skýrslutöku 11. nóvember sl. Þegar í ljós kom að vitnin höfnuðu slíku eða sinntu því ekki óskaði nefndin eftir því í samræmi við lög um rannsóknarnefndir að þau yrðu kvödd fyrir héraðsdóm sem vitni til að svara spurningum um rannsóknina. Viðbrögð þeirra við óskum rannsóknarnefndarinnar um upplýsingar hafa leitt til þess að tafir hafa orðið á störfum nefndarinnar og fyrirsjáanlegt er að ekki mun takast að ljúka rannsókninni innan þess tíma sem ákveðinn er í ályktun Alþingis. Rannsóknarnefndin telur æskilegt að fresturinn sem henni er veittur til að skila skýrslu sinni verði framlengdur, enda yrði að öðrum kosti viðbúið að látið yrði reyna enn frekar á umboð og heimildir nefndarinnar fyrir dómstólum ef skýrslu verður ekki skilað fyrir 31. desember nk. Þessi fordæmalausu viðbrögð umræddra vitna við beiðni rannsóknarnefndarinnar um upplýsingar valda því að málið er nú í höndum dómstóla og óhjákvæmilegt er að rannsóknin muni dragast af þeim sökum. Með tillögunni er því lagt til að Alþingi álykti að í stað þess að nefndin ljúki störfum sínum eigi síðar en 31. desember nk. skuli hún ljúka störfum sínum svo fljótt sem verða má.

Fullt samkomulag var um það í forsætisnefnd og stutt af forseta, varaforsetum og áheyrnarfulltrúum að Alþingi myndi með þessum hætti standa að baki rannsóknarnefnd sinni. Í ljósi þess að málið er flutt af forsætisnefnd, þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti auk áheyrnarfulltrúa, legg ég til að máli þessu verði ekki vísað til nefndar að lokinni þessari umræðu heldur gangi til síðari umr.