146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kemur til af því að hluti af álögum á eldsneyti er merktur þessum tilgangi, ekki allar álögur á eldsneytið, en hluti af þeim. Svo ákveða menn að til viðbótar við það fjármagn sem þannig safnast saman þá ætli menn að fara í aðrar framkvæmdir. Svo er reynt að halda utan um það með þessu bókhaldi. Skiptir það miklu máli að við höfum þetta reikningslega nákvæmt alltaf frá einum tíma til annars? Já, það er kannski fróðlegt að sjá það og glöggva sig á því. Ég hef stutt þá viðleitni sem við höfum verið að vinna eftir og er svona meginlínan í nýjum lögum um opinber fjármál að við færum okkur frá þessum mörkuðu tekjum. Af því að þegar allt kemur til alls þá skiptir bara fyrst og fremst máli að við áttum okkur á því hvernig ástandið er á vegakerfinu, hvað við setjum mikið í viðhald, hvaða stofnfjárfestingarþörf er þar uppsöfnuð og til framtíðar. Hvernig stendur ríkissjóður heilt yfir, ekki aðeins með tilliti til þeirra tekna sem við höfum markað þessum málaflokki heldur heilt yfir, hvernig stendur ríkissjóður, hvernig er ástandið í efnahagsmálum til að ríkið auki við umfang sitt í fjárfestingum o.s.frv.? Þetta eru spurningarnar sem í raun og veru skipta öllu. En það getur verið fróðlegt að átta sig á því hvernig staðan er gagnvart þessum hluta mörkuðu teknanna og hver þessi bundna eiginfjárstaða er, jákvæð eða neikvæð hverju sinni, og hvernig hún stendur. Ég hef ekki viljað gera of mikið með hana, þannig að það sé sagt. Það eru til stofnanir sem eru með jákvæða bundna eiginfjárstöðu og óska eftir heimildum til að verja þeim tekjum með fjárheimildum. Svo eru aðrar sem eru með neikvæða stöðu. Ég hef horft á þetta til viðmiðunar um einhverja sögu sem hefur safnast upp. En þegar allt kemur til alls þá skiptir máli hvað mikið er til til að verja í fjárheimildir hverju sinni á fjárlögum.