146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

umræða um fjáraukalög.

[10:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég get ekki annað en kvartað yfir fundarstjórn forseta vegna þess að við erum að fara að ræða fjáraukalagafrumvarp sem var lagt fram seint í gærkvöldi og fjárlaganefnd á að fara að taka til umræðu. Mér þykir algjörlega óásættanlegt að ætlast til þess af þingmönnum sem eru á fundum daginn út og daginn inn, einkum í fjárlaganefnd, hafa fengið til sín líka lokafjárlög og eru að reyna að sauma saman fjárlög að þeir eigi svo að fara að ræða fjáraukalög, sem ég leyfi mér að segja að enginn hefur lesið á þann hátt að hann geti tjáð sig sérstaklega um þau.

Að auki er óásættanlegt að við búum við mismunun þegar kemur að upplýsingum. Í gær var tekið viðtal við mann úr fjárlaganefnd þar sem farið var með tilteknar tölur sem við höfum ekki hugmynd um, alla vega ekki ég og ég veit að fleiri hafa ekki haft þær tölur til staðar, til þess að geta tekið þátt í þeirri umræðu. Það er hringt og beðið um viðtal við fjárlaganefndarmenn en þeir (Forseti hringir.) geta ekki veitt neinar upplýsingar vegna þess að þeir hafa engar tölur í höndunum þegar beðið er um viðtal um miðjan dag í gær. Það er óásættanlegt.