146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Framsóknarflokkurinn á afmæli á morgun og því fögnum við Framsóknarmenn með veglegri hátíð í Þjóðleikhúsinu og hátíðum víða um land næstu daga. Þangað eru að sjálfsögðu allir velkomnir. Framsóknarflokkurinn er 100 ára, hefur starfað með þjóðinni í 100 ár, heila öld. Það er í sjálfu sér ekki langur tími, svona í eilífðinni, en vissulega langur tími í pólitík. Framsóknarflokkurinn, elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, hefur átt aðild að ríkisstjórn í 62 ár. Eðli málsins samkvæmt höfum við komið mörgum framfaramálum til leiðar og haft afgerandi áhrif á þróun samfélagsins sem breyttist á þessum tíma úr einföldu bændasamfélagi í tæknivætt nútímasamfélag með rödd meðal þjóða heimsins. Auðvitað gerðum við þetta ekki ein því að stjórnmálin snúast um samvinnu og samtal. Gildi samvinnustefnunnar falla aldrei úr gildi.

Upphaf flokksins má rekja til Seyðisfjarðar haustið 1916. Þá voru þingmenn af Norður- og Austurlandi á leið til þings sem hafði verið kallað saman í desember því að þá átti, líkt og nú, að mynda ríkisstjórn. En skipunum seinkaði og menn höfðu tíma til að ráða ráðum sínum og ákváðu þingmennirnir að stofna þingflokk. Þegar þeir komu loks til Reykjavíkur höfðu þeir samband við fleiri þingmenn og úr varð að stofnendur flokksins urðu alls átta. Fyrsta fundargerð hins nýja flokks var bókuð 16. desember 1916 og telst það því stofndagur hans.

Stofnanir flokksins standa á gömlum merg. Á öðru flokksþingi Framsóknarflokksins árið 1931 var miðstjórn og framkvæmdaráð stofnað, árið 1933 voru flokksfélögin orðin 52. Samband ungra Framsóknarmanna var stofnað 1938 og Landssamband Framsóknarkvenna var stofnað 1981. Þetta er dýrmætt. Við höfum ramma til að starfa eftir, getum leitað í söguna, um allt land höfum við sterka grasrót sem byggir á gömlum merg, fólk sem hefur hugsjónir og vill vinna að þeim. Það eru forréttindi að fá að starfa í slíkum flokki.

Hæstv. forseti. Verkefni stjórnmálanna er að vinna að framfaramálum hvers tíma, hafa áhrif og vinna samfélaginu gagn. Það ætlum við Framsóknarmenn að gera áfram og hlökkum til.


Efnisorð er vísa í ræðuna