146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Herra forseti. Á framboðsfundi í Menntaskólanum á Akureyri sem fram fór um miðjan október var m.a. rætt um fjárhag ríkissjóðs. Einn ágætur frambjóðandi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, ágætur maður, vísaði til heimsbókmenntanna í máli sínu þegar hann sagði að ríkissjóður væri fullur líkt og peningageymsla Jóakims aðalandar. Hæstv. fjármálaráðherra tók í svipaðan streng í fjölmiðlum, án þess þó að vísa til heimsbókmenntanna, þegar hann talaði um góða stöðu ríkissjóðs. Fleiri stjórnarliðar höfðu áþekkan boðskap fram að færa. „Á réttri leið“ var það kallað. Þetta voru svo sannarlega góð tíðindi sem tóku á sig gleðilega birtingarmynd í metnaðarfullri samgönguáætlun. Laugardaginn 29. október var svo kosið. Kjósendur lögðu leið sína á kjörstað með þessar gleðilegu upplýsingar í farteskinu. Svo var talið upp úr kjörkössum og hinir ýmsu stjórnmálaflokkar hófu viðræður um ríkisstjórnarsamstarf. Þá kom upp úr dúrnum að staða ríkissjóðs var ekki eins glæsileg og látið hafði verið í veðri vaka, auk þess sem láðst hafði að fjármagna nýsamþykkta samgönguáætlun. Þegar fjallað var um fjárlagafrumvarpið í Kastljósi þriðjudaginn 6. desember sagði hæstv. fjármálaráðherra m.a., með leyfi forseta:

„Ég tel að það sé ekki svigrúm til að fullfjármagna þessa áætlun í samgöngum.“

Svo mörg voru þau orð. Það er ansi margt sem ekki er svigrúm til að fjármagna vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Kjósendur voru einfaldlega blekktir. Þeir trúðu því og treystu að hægt yrði að stórauka framlög til heilbrigðismála, samgöngumála og fleiri mála sem sannarlega hafa setið á hakanum undanfarin misseri.

Herra forseti. Það er vont að vera hafður að ginningarfífli.


Efnisorð er vísa í ræðuna