146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni fréttir sem hafa borist af mansalsmáli sem fellt hefur verið niður hjá héraðssaksóknara. Ég held að við flest sem höfum fylgst með þessu máli séum mjög hissa að ekki hafi verið látið á það reyna. Í fréttum hefur formaður Starfsgreinasambandsins, Drífa Snædal, sagt að þetta sé sennilega eitt skýrasta dæmi um mansalsmál sem inn á borð hefur komið til sambandsins og ef ekki sé hægt að kæra í þessu máli séu aðgerðir gegn mansali eitthvað sem sé ekki í boði á Íslandi.

Það er almennt þekkingar- og skilningsleysi á eðli mansalsmála í réttarkerfinu. Samkvæmt aðgerðaáætlun gegn mansali hefur átt að fræða lögreglu, saksóknara og dómara. Eftir því sem fréttir segja virðist lögregla hafa staðið sig vel í þessu máli en svo strandar á saksóknarstiginu. Vegna þessa lagði ég fyrr í vikunni fram fyrirspurn til innanríkisráðherra um framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, sérstaklega í ljósi þess að hún rennur sitt skeið á enda um áramótin og greinilegt að ekki nægir að framlengja heldur þarf að bæta verulega í til að þessi málaflokkur komist í góð mál.

Ég vona að það þurfi ekki einu sinni þessa fyrirspurn til til að ráðuneytið skoði þessi mál, skoði hvernig verkferlar virkuðu í þessu máli, hvernig fræðsla hefur skilað sér í réttarvörslukerfið og hvernig stendur á því að konur sem saumuðu föt í kjallara teljast ekki seldar mansali vegna þess að þær fengu frítt fæði og húsnæði. (Forseti hringir.) Við megum, eins og rómverskir þingmenn til forna, halda húsþræla, bara ef við gefum þeim að borða.


Efnisorð er vísa í ræðuna