146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir hafa gert, óska Framsókn til hamingju með 100 ára afmælið og ég vil líka þakka boðið. Það er spurning hvaða boð maður velur. [Hlátrasköll í þingsal.]

Það sem ég vil gera að umtalsefni er þegar maður fylgdist með umræðum nokkurra flokka um að mynda ríkisstjórn og umræðan í samfélaginu um stöðuna, um fjárlagafrumvarpið, hér væru niðurskurðarfjárlög þegar veruleikinn er sá að þetta er sennilega mesta útgjaldaaukningarfrumvarp síðan kannski 2007, kannski næstmesta í sögunni. Svo þegar maður horfir á fjáraukann, viðbæturnar sem þar koma, lokafjárlög þar sem verið er að stroka út skuldir flestra ef ekki allra stofnana, halann sem menn hafa dregið á eftir sér, það er gífurleg aukning. En hér tala allir um að ekkert hafi gerst og meira að segja síðustu ár þar sem mikil aukning hefur verið í velferðarmál, heilbrigðismál og almannatryggingamál, söguleg aukning milli ára. Og allir tala um að ekkert hafi verið gert. Bara ekkert. Hér hafi verið eintómur niðurskurður. Í hvaða veruleika erum við eiginlega komin? Mér er þetta algjörlega óskiljanlegt. Og menn tala svona enn þá.

Ég held að vandamálið sem við glímum við núna sé að of mikið af útgjöldum er í fjárlagafrumvarpinu. Við erum að fara of bratt. Við ættum að hugsa núna hvort ástæða sé til að skera niður og beita aðhaldi og aga. Til lengri tíma litið kann það að vera betra fyrir þjóðina.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna