146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Eftir yfirferð yfir málaflokka ríkisfjármála síðustu daga langar mig til að koma inn á þann þátt í starfsemi ríkisins er varðar fjárfestingar og efnahagsáhrif. Nýmæli er í lögum um opinber fjármál að starfsemi ríkisins nái einnig til starfsemi annarra opinberra aðila, þ.e. starfsemi sveitarfélaga og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Til að meta efnahagsáhrifin af starfsemi allra þessara opinberu aðila á þjóðarbúskapinn þá þurfum við upplýsingar og þær þurfa að vera samræmdar. Í fyrsta lagi er athyglisvert að Hagstofan og Seðlabankinn eru ekki með samræmdar forsendur þegar fjárfestingar eru teknar saman en þær eru ekki alveg í samræmi við forsendur fjármála- og efnahagsráðuneytis, án þess að ég viti nákvæmlega hver munurinn er, en þær eru ekki eins.

Í tengslum við fjárhagsáætlanir hjá sveitarfélögunum og því samkomulagi sem gert var með það að markmiði að hið opinbera vinni sameiginlega að góðri hagstjórn og ábyrgri stjórnun opinberra fjármála þá er stefnt að því að sveitarfélögin stuðli ekki að efnahagsþenslu á áætlunartímabilinu.

Hvað varðar fjárfestingar sveitarfélaga er vandinn sá að í fjárhagsáætlunum kemur ekki skýrt fram um fjárfestingar á vegum sveitarfélaga til að meta efnahagsþensluna í heild sinni. Þar kemur fram hvað sveitarfélögin sjálf fjárfesta í sinn reikning, en það virðist hins vegar vera erfitt að finna t.d. hversu margar íbúðir eru í byggingu, t.d. á þessu ári að finna hversu margar eru á skipulagi næstu fimm árin. Þetta eru upplýsingar sem ég hef verið að leita eftir en ekki fundið. Sambandið tekur þetta ekki saman. Landshlutasamtökin hafa ekki tekið þetta saman. Einhverjir hafa verið að telja byggingarkrana. Áður fyrr var hringt á milli staða. En þessar upplýsingar liggja ekki fyrir markvisst. Mér finnst það áhyggjuefni og þessu þarf að koma í betri farveg ef við ætlum að fara eftir markmiðum nýrra laga. Síðan í öllu þessu samhengi (Forseti hringir.) þurfum við líka að skoða aðrar fjárfestingar fyrirtækja í eigu ríkisins.

Ég vil nefna þetta vegna þess að með samræmdar upplýsingar og með markmið laga (Forseti hringir.) um opinber fjármál í huga erum við að beita opinberum fjármálum til hagstjórnar með betri hætti.


Efnisorð er vísa í ræðuna