146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að ungt fólk leitar nú í æ meira mæli til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsstöðu sinnar. Þetta eiga ekki að vera fréttir fyrir okkur alþingismenn. Það eru núna næstum tvö ár síðan ég og fleiri þingmenn í hv. velferðarnefnd heimsóttum stofnunina og fengum þær fréttir að aðstoð vegna fasteignalána og ofurskuldsetningar væri svo til lokið á þeim tíma, en enn þá væru mikil verkefni hjá embættinu við að aðstoða ungt fólk í skuldavanda vegna neysluskulda. Þetta var ungt fólk, oft með börn á framfæri, sem náði ekki endum saman um hver mánaðamót. Það eru bara einfaldlega ekki til peningar hjá ungum fjölskyldum fyrir nauðsynlegum útgjöldum eins og leikskólagjöldum, fatnaði og leigu. Þessi venjulegu og nauðsynlegu útgjöld eru í stigvaxandi mæli fjármögnuð með skammtímalánum eins og yfirdrætti í bönkum. Á sama tíma höfum við séð að tekjur ungs fólks miðað við aðra hópa í samfélaginu hafa dregist saman. Ungt fólk hefur ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og þeir eldri.

Virðulegi forseti. Ungar fjölskyldur mega ekkert við þessu. Þær eru á því æviskeiði að útgjöld eru mikil. Það þarf að koma börnum á legg. Það þarf að mennta sig. Það þarf að borga leigu, það þarf að vinna. Og einhver gæti sagt: Þetta er ekkert nýtt, það hafa allar kynslóðir farið í gegnum þetta. Það hefur verið strögl fyrir alla að koma sér upp fjölskyldu og húsnæði. En það er einfaldlega ekki rétt því að allar rannsóknir og kannanir sem við sáum á síðasta ári hafa sýnt að staða ungs fólks sem hóps er mun verri í dag en fyrir t.d. tíu árum. Kaupmáttur er minni hjá nákvæmlega þessu fólki. Að þessu verðum við að huga sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu, virðulegir þingmenn. Við þurfum að (Forseti hringir.) skoða það t.d. með því að athuga tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkis, því að við þurfum að aðstoða sveitarfélögin að veita helst (Forseti hringir.) gjaldfrjálsan leikskóla og aðra þjónustu til að aðstoða ungar barnafjölskyldur.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna