146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

störf þingsins.

[11:09]
Horfa

Hafdís Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Vestfirðir hafa glímt við vandamál tengd fólksfækkun og skorti á atvinnutækifærum. Þessi neikvæða þróun hefur varað í rúmlega 40 ár. Það hefur m.a. valdið því að í gegnum tíðina hefur verið erfitt fyrir sveitarfélög í fjórðungnum að sinna grunnþjónustu vel. Vestfirðingar hafa því verið í mikilli varnarbaráttu þegar kemur að grunnstoðum í samfélaginu sem veldur iðulega svartsýni fólks um framtíðarhorfur svæðisins. En nú eru nýir tímar á Vestfjörðum. Tækifæri hafa nú loks skapast til að snúa þessari neikvæðu þróun við með aukinni verðmætasköpun á svæðinu og um leið að fólk sjái Vestfirði sem spennandi búsetukost. Vaxandi atvinnuvegir eins og ferðaþjónusta, tækniiðnaður og fiskeldi hafa burði til að verða kjölfesta í atvinnulífi Vestfjarða. Einnig hafa öflug fyrirtæki fest sig í sessi þrátt fyrir ýmsar hindranir.

Þessum tækifærum fylgir þörf til þess að við vinnum með atvinnulífinu til að skapa aukin verðmæti fyrir þjóðarbúið, öllum landsmönnum til hagsbóta. Með því er hægt að snúa vörn í sókn. En það er ekki nóg að hafa tækifæri til staðar því að Vestfirðingar þurfa tólin til að nýta þau tækifæri sem eru í boði.

Á Vestfjörðum blasa við bjartari tímar. Ég held að sjaldan hafi Vestfirðingar verið jafn bjartsýnir yfir því sem svæðið hefur upp á að bjóða á næstu árum ef haldið er rétt á spilunum. Við þurfum samráð, þvert á ráðuneyti, til að leysa brýn mál sem snúa að innviðum svæðisins svo að Vestfirðir geti haldið áfram að eflast. Ég trúi því að slík fjárfesting muni borga sig margfalt til baka fyrir alla Íslendinga, hvort sem þeir búa á Flateyri eða í vesturbæ Reykjavíkur.


Efnisorð er vísa í ræðuna