146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Staðan er nú samt orðin þannig núna að hjón í lægsta tekjufjórðungi fá um 2 þús. kr. á mánuði í barnabætur. Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur hlutverki barnabótakerfisins. Er það til þess að styrkja allra fátækasta fólkið í landinu sem er undir lágmarkslaunum eða þar um bil, eða erum við hér með kerfi sem jafna á stöðu barnafólks miðað við stöðu annarra í samfélaginu? Á meðan launavísitalan hefur hækkað um tæplega 30% hafa viðmiðunarmörkin varðandi fullar greiðslur haldist óbreytt. Það þarf að fara yfir hlutverkið og taka þá pólitísku umræðu og gefa okkur tíma til að ræða um hlutverk kerfisins.

En það er annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í, þ.e. áætlun á arðgreiðslum. Það hefur ekki gengið vel að áætla þær undanfarið. Árið 2015 var lokaniðurstaðan 30 milljarðar í arðgreiðslur. Mér sýnist hún vera 36 milljarðar árið 2016 með þeirri viðbót sem hér er, en í áætlun fyrir árið 2017 eru áætlaðir 16 milljarðar. Er ekki þarna á ferðinni ákaflega óvönduð áætlanagerð? Eða hvers vegna er ekki meira áætlað á árinu 2017 nú þegar eignarhlutur okkar er meiri en t.d. fyrir árið 2015? Þá áætluðum við 15,4 milljarða í arð.