146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við getum velt fyrir okkur hvernig við eigum að byggja upp vaxtabóta- og barnabótakerfin. Mér hefur alltaf þótt skipta mjög miklu máli að við horfum á það í einhverju heildarsamhengi, í samhengi við tekjuskattsbyrði viðkomandi tekjutíunda, sem einkum er verið að horfa til. Að við skoðum önnur stuðningskerfi, eins og t.d. húsnæðisbótakerfið þar sem einnig er horft til fjölskyldustærðar, og að við gætum þess ávallt að ekki sé komið fyrir svo miklum tekju- og eignatengingum hingað og þangað í kerfinu að jaðarskattaáhrifin séu orðin óviðunandi. Þess eru dæmi að fólk njóti allt of lítils við launahækkanir vegna ýmiss konar skerðinga sem þá grípa inn í við tekjuhækkun. Sýnt hefur verið fram á að jaðarskattar geti numið allt að 50% í ákveðnum tilvikum. Við þurfum að halda áfram með þá umræðu.

Varðandi áætlun um arðgreiðslur er það rétt að við höfum átt því að venjast á undanförnum árum að arðgreiðslur skili sér í mun meiri mæli til ríkissjóðs en við höfum gert ráð fyrir. Það verklag hefur verið viðhaft í því efni að leita eftir áætlun Bankasýslunnar sem fer með eignarhluti ríkisins í bönkunum. Tillögur um arðgreiðslur liggja ekki fyrir almennt vegna næsta árs þegar fjárlagavinnan er undirbúin. Það væri óvarlegt að fara að gefa sér það langt inn í framtíðina hverjar tillögur stjórnar viðkomandi viðskiptabanka verða á komandi ári í því efni án þess að hafa eitthvað haldbært í höndunum. Það má segja að þetta hafi á vissan hátt verið ónákvæm vísindi, en mér líkar betur við það þegar við vanáætlum tekjur af arðgreiðslum en þegar við ofáætlum (Forseti hringir.) þær, sérstaklega þegar menn ofáætla og ráðstafa því síðan sem ofáætlað var í einhver varanleg útgjaldatilefni.