146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[12:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir það sem komið hefur fram í máli annarra þingmanna, þar á meðal hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, um það hversu seint við þingmenn fáum fjáraukalögin til kynningar. Að því sögðu er rétt að árétta að hvorki ég né meiri hluti annarra þingmanna höfum fengið tíma til að kynna okkur fjáraukalögin til hlítar.

Ég ætla að beina sjónum mínum að ákveðnum málaflokki sem eru loftslagsmálin og umhverfismálin. En áður en ég geri það langar mig til þess að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir það að gera tillögu í fjáraukalögunum um 700 millj. kr. hækkun á framlagi til að mæta auknum fjölda hælisleitenda. Eins og segir í textanum um þann lið stefnir í að umsóknir um alþjóðlega vernd verði 1.100 á árinu, sem er næstum þreföldun á umsóknum á milli ára. Í þessum fjáraukalögum er verið að mæta auknum kostnaði vegna hælismála umfram gildandi fjárlög 2016. Ég fagna því að hér sé brugðist við því, enda hefði annað verið óeðlilegt. En á sama tíma vil ég benda á varðandi fjárframlög til Landspítalans að gerð er tillaga um 100 millj. kr. fjárveitingu vegna aukins álag vegna fjölda hælisleitenda og aukningar erlendra ferðamanna. Ég spyr mig hvort það sé nóg og hvort það teljist í raun vera aukning miðað við þau útgjöld sem stjórnendur Landspítalans hafa beðið um og óskað eftir til þess að halda dampi í rekstri sínum.

Eins og fyrr sagði vil ég hér beina sjónum mínum að loftslagsmálum. Ég hef áður vakið athygli á því í ræðu í þinginu að í fjárlögum fyrir næsta ár sé óviðunandi hversu litlir fjármunir séu áætlaðir í þann málaflokk, loftslagsmálin, sér í lagi í tengslum við undirritun og fullgildingu Parísarsamkomulagsins. En eins og kunnugt er fullgilti Ísland Parísarsamkomulagið sem er samkomulag um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á Alþingi 19. september síðastliðinn, en þá hafði Ísland ritað undir samninginn hálfu ári áður.

Í fjárlögum fyrir næsta ár eru 250 millj. kr. eyrnamerktar sóknaráætlun eða fjármögnun verkefna sem falla undir sóknaráætlun í loftslagsmálum, en því miður er sú upphæð ætluð fjármögnun verkefna til þriggja ára í þessum málaflokki, sem þýðir að að meðaltali er um 83 millj. kr. á ári varið í þennan málaflokk. Það þykir mér nú ákaflega rýrt og miður miðað við mikilvægi og umfang loftslagsmála og miðað við hinn alþjóðlega samning sem við undirrituðum og fullgiltum svo hér fyrir skömmu síðan.

Í þessari upphæð er verið að tala um 67 millj. kr. á þremur árum í rafbílavæðingu og heilar 8 millj. kr. í kolefnisjöfnun sem dreifast eiga á tvö ár. Ég sakna þess að sjá ekki í fjáraukalögunum að bætt sé í þann málaflokk þegar kemur að loftslagsmálunum, vegna þess að þær upphæðir sem fara eiga í það samkvæmt fjárlögum fyrir komandi ár eru algjörlega óviðunandi og ekki í takt við þá stöðu sem við viljum marka okkur á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að þeim skuldbindingum, loforðum og samningum sem við viljum fullnægja varðandi loftslagsmálin.

Að því sögðu geri ég mér grein fyrir því að hlutverk fjáraukalaganna, eins og segir hér í innganginum, er fyrst og fremst að taka til óhjákvæmilegra málefna, þar á meðal áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ekki til nýrra verkefna, aukins umfangs starfsemi eða rekstrarhalla. En samt sem áður er hér um að ræða nýja samninga sem undirritaðir voru og fullgiltir nú í september og því tel ég að í fjáraukalögum beri að taka tillit til þessara samninga og auka fjármagn í þennan málaflokk til þess að við getum borið höfuðið hátt þegar kemur að fullgildingu samningsins og stöðu okkar meðal þjóða.

Ég velti því m.a. fyrir mér að í fjárframlögum til utanríkisráðuneytisins á fjárlögunum er ekki eyrnamerkt fjármagn til utanríkisráðuneytisins þó svo að utanríkisráðuneytið fari með verkstjórn og hluta af fullgildingu samningsins. Þegar undirrituð spurði um það á fjárlaganefndarfundi var sagt að mæta ætti þeim skuldbindingum með auknum verkefnum á núverandi starfsfólk, sem mér finnst engan veginn viðunandi.

Ég vildi vekja athygli á því að ég sakna þess og það eru vonbrigði að sjá ekki aukningu til þessa málaflokks í fjáraukalögum, sem sannarlega er annars tilefni til. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjármálaráðherra hefði sýnt vilja sinn til þess að bæta um betur.

Að því sögðu ítreka ég það sem ég sagði í upphafi, að ég hef ekki haft alveg nógu mikinn tíma til þess að kynna mér þá stóru málaflokka sem hér eru svo sannarlega undir og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór vel yfir, þar á meðal varðandi barnabætur, vaxtabætur og aðra málaflokka sem standa í stað og ekki er gefinn gaumur í fjáraukalögunum.