146. löggjafarþing — 5. fundur,  15. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[12:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með mörgum sem hér hafa talað hvað varðar lítinn tíma til að kynna sér frumvarpið frá því það kom fram og þar til það er rætt. Það er ekki síst bagalegt þegar við erum nokkuð mörg býsna blaut á bak við eyrun og erum svona ósjóuð í þessu. En engu að síður er náttúrlega nauðsynlegt að vinna hratt og örugglega og gera það.

Ég get tekið undir með mörgum hv. þingmönnum varðandi einstök efnisatriði þannig að ég ætla ekki að hafa þetta langt. Ég ætla aðeins að nefna bara einn lið sem varðar mennta- og menningarmálaráðuneytið, þ.e. fjárveitingar til Menntaskólans á Akureyri upp á 30 milljónir vegna breytinga á tímaramma skólaárs. Hér hefur margoft komið fram að fjáraukalögin eru fyrst og fremst hugsuð til þess að taka á ófyrirséðum breytingum. Því langar mig að vekja athygli á að þetta eru engar ófyrirsjáanlegar breytingar. Í tæplega tvö ár hefur hæstv. menntamálaráðherra gefið vilyrði fyrir því að veita peninga í þetta verkefni en ekki getað staðið við það af einhverjum ástæðum. Forsagan er að eftir gönuhlaup hæstv. menntamálaráðherra fyrir rúmu ári þegar hann gerði kröfu um samvinnu, samþjöppun eða sameiningu menntaskólanna á norðaustursvæðinu þá hófst mikil vinna í sveitarstjórnum, í skólanefndum og víðar með hvaða hætti væri hægt í rauninni að bregðast við. Þetta var allt býsna illa undirbúið hjá hæstv. menntamálaráðherra. En niðurstaðan varð þó sú að skipuð var nefnd sem í voru, í rauninni að tilstilli landshlutasamtakanna Eyþings, fulltrúar frá framhaldsskólunum þar sem rætt var um hvernig skólarnir gætu unnið saman. Sú vinna skilaði ágætisniðurstöðu og sátt þar sem leiðarstefið var að taka upp aukna samvinnu og virða í rauninni styrk og tilgang litlu skólanna á jaðarsvæðum og koma þeim í betri tengingu hver við annan og ekki síst við stærri skólana á Akureyri. En til þess að sú samvinna gæti átt sér eitthvert upphaf þurfti að breyta skólaári Menntaskólans á Akureyri og þess vegna hefur þessi skortur á peningum hindrað að hægt væri að fara í þá vinnu af fullum krafti. Ég er vissulega ánægður með að sjá þetta í fjáraukalögunum en bendi á að þetta var auðvitað ekkert ófyrirséð og hefði löngu átt að vera búið að greiða fyrir því máli.