146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[13:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann og framsögumann málsins, Björt Ólafsdóttur, hvort hún hafi fylgst með ræðunum í 1. umr. og heyrt það sem ég benti á, þ.e. að í frumvarpinu er það ákvæði í greinargerðinni, um að kjararáð skuli ætíð taka tillit til almennrar launaþróunar, miklu veikara og styður þar af leiðandi illa við — það er hægt að líta svo á að ekki sé mikið á bak við það þegar sagt er að taka skuli tillit til almennrar launaþróunar. Þegar maður skoðar greinargerðina, þegar Kjaradómur var og hét og verið var að breyta honum í kjararáð, var fært inn ákvæði í lögin, sem var alveg skýrt, um að ekki mætti fara umfram almenna launaþróun og var talað um ramma. Það var undirstrikað sérstaklega að taka þyrfti tillit til innra samræmis og ytra en aldrei fara umfram.

Það ákvæði er ekki inni í nýja frumvarpinu. Þetta er heildarendurskoðun á lögunum sem þýðir að þar sem gamla greinargerðin fer ekki með, þó að maður sé með sama texta, fær maður ekki sömu áhrif. Núna erum við með veik áhrif þannig að kjararáð tók ákvörðun sem fór umfram almenna launaþróun og braut þar af leiðandi líklega lög þegar það hækkaði laun þingmanna allverulega á kjördag. Núna er verið að veikja ákvæðið þannig að kjararáð geti gert slíkt án þess að brjóta lög, þannig að það eru ekki varnaglar í því ákvæði.

Við vitum alveg hvað gerðist í kjölfarið, þá sögðu heildarsamtök á vinnumarkaði að hætta væri á upplausn á vinnumarkaði ef Alþingi mundi ekki bregðast við. Og nú er Alþingi eitthvað að bregðast við, og hver eru viðbrögðin? Að veikja getuna til þess að stemma stigu við því að kjararáð geti komið fram með svona brjálaða úrskurði og skapi með því hættu á upplausn á vinnumarkaði.

Ég er búinn að fá það staðfest frá aðilum á vinnumarkaði að hér er um veikingu að ræða á þessu ákvæði. Við Píratar erum tilbúnir með breytingartillögu, við umorðuðum hana eftir umræðu í nefndinni. Ég vil spyrja hv. framsögumann, Björt Ólafsdóttur, hvort hún sé ekki sammála því að við tryggjum það sérstaklega og fáum samtök á vinnumarkaði, ASÍ og SA, til að gefa umsögn um það. Ég vil líka spyrja ráðuneytið um hvort við (Forseti hringir.) getum tryggt það í lögum, að það sé rammað inn að kjararáð geti ekki hækkað launin okkar umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði.