146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[13:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þingmenn í nefndum getum ekki breytt greinargerð sem kemur úr ráðuneytinu. (JÞÓ: Þið getið samþykkt breytingartillögur sem …) Við getum ekki breytt greinargerð úr ráðuneyti en við getum lagað til frumvarpið sjálft og það er svona, 4. gr., hvað þetta varðar. Ég ætla að lesa greinina hvað það varðar sem hv. þingmaður nefnir:

„Við ákvörðun starfskjara þeirra sem kjararáð ákveður laun fyrir skal ráðið gæta þess að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu. Í þessu skyni skal kjararáð fylgjast með og leggja mat á kjarasamninga og almenna launaþróun.“

Svo er bætt við hér, og það er nýtt, eftir athugasemdir Samtaka atvinnulífsins og annarra:

„Kjararáð skal í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði. Kjararáði er þó heimilt að ákveða að laun taki árlega breytingum“ — athugið, þetta er mikilvægt, að við séum einmitt að tryggja að kjararáð sé ekki í sínum störfum að taka stór stökk eins og við sáum það seinast gera. Ég ætla ekki að afsaka það. Það er einmitt það sem við viljum ekki að gerist. Kjararáð á að úrskurða árlega eftir kjaraþróun í landinu. Þetta er alveg skýrt í mínum huga í 4. gr. frumvarpsins og það er mjög gott af því að við viljum ekki lenda í þessum sporum. Menn spurðu sig: Hvað er í gangi hérna? Ef horft er frá 2013 er þetta eitthvað allt annað en almennt er að gerast. Þá sögðu einhverjir: Já, en horfið á launin frá 2006 og þá er þarna einhver lína sem hægt er að miða við. Nú veit ég ekkert, af því að ég er ekki í kjararáði, hvað það nákvæmlega miðaði við þarna. Ef línan er dregin frá 2006 er hún á einhvern hátt, að mér skilst, réttari.

En í 4. gr. frumvarpsins erum við vonandi að girða fyrir það að þetta gerist aftur. Það er óþolandi að (Forseti hringir.) vera þingmaður og þurfa að búa við það að aðilar úti í bæ ákveði launin manns (Forseti hringir.) og maður getur ekki verið sáttur við hvernig það var gert. Nú erum við að laga það.