146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Lækkun launa þingmanna var 2008 og teygðist fram á árið 2009 svo það sé allt á hreinu. Ef við förum aftur til 2006 erum við með þessa lækkun inni og þar er það samt sem áður 21% hækkun umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði, örlítið hærra ef við tökum opinbera markaðinn þannig að það sé alveg ljóst. Það er samt verið að hækka og taka upp 21% umfram launaþróun ef við förum aftur til 2006. Þetta eru tölur frá Samtökum atvinnulífsins.

Það eru aðeins öðruvísi tölur frá fjármálaráðuneytinu, það er samt sem áður 13% hækkun þar umfram almenna launaþróun ef við förum aftur til 2006 og erum þar af leiðandi með lækkun launa þingmanna inni í þeim tölum. Við erum að fara umfram. Ætlar þingmaðurinn þá að segja: Já, en af því að við vorum með svo lág laun í svo langan tíma eigum við að fá hækkun afturvirkt? Er það virkilega það sem þingmaðurinn er að segja? Þá getur hann reynt að tala um að það sé góð hugmynd. Það er bara afleit hugmynd eftir að menn voru ekki tilbúnir að vera með afturvirka hækkun á öryrkja. Hv. þm. Brynjar Níelsson getur þá haldið því fram ef hann vill. En ákvörðunin hjá kjararáði er umfram það viðmið sem má. Við fáum það þá bara fyrir dómstóla, ég veit ekki hvort hv. þm. Brynjar Níelsson hefur heyrt það en ég ræddi við lögfræðinginn minn aftur í morgun og ég er aðili máls og get þá kært þetta mál og mun gera það. Þá fáum við bara upp á borðið hvað er rétt í þessu máli.

Já, það svarar þá þessari spurningu. Ég sagði: Glæpur, dró það til baka af því að þetta er ekki glæpur, þetta varðar ekki hegningarlög, en þetta er lögbrot.