146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég stóð í þessari pontu fyrir viku síðan og sagði að þetta frumvarp væri ill nauðsyn. Ég er enn þá sammála því á vissan hátt, en ég er líka á því að það sé ill nauðsyn að vinna þetta mál mjög vel og vandlega, að við séum ekki að ana fram með einhverja vitleysu.

Þriðji minni hluti, þ.e. ég fyrir hönd þingflokks Pírata, er hlynntur öllum markmiðum frumvarpsins. Þó hefur ekki tekist að ná viðunandi sátt um þá nálgun sem er í frumvarpinu. Að öllum störfum nefndarinnar ólöstuðum hefur málshraðinn auk þess verið allt of mikill sé miðað við umfang og stærð málsins. Gefinn hefur verið mjög stuttur tími til þess að veita umsagnir og hafa umsagnaraðilar kvartað yfir því. Keyrslan í nefndarvinnunni gaf heldur ekki ráðrúm til að vinna bakvinnuna faglega og með upplýstum hætti.

Til viðbótar má benda á að vinnan í ráðuneytinu hefur kannski ekki verið unnin með nægilega mikill ró þar sem það virðist hafa gleymst að hafa lífeyrissjóðinn Brú með í upprunalegu frumvarpi.

Ég hef þó meiri áhyggjur af öðrum þáttum og þá fyrst og fremst efnahagslegum áhrifum þess og þau eru mjög óskýr. Efnahagsleg áhrif þess að samþykkja frumvarpið eru óljós vegna þess að samkvæmt mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur tilfærsla á 130 milljörðum kr. úr ríkissjóði inn í ofþanið lífeyrissjóðakerfi, sem er um 4% stækkun á því kerfi samkvæmt áætlun minni og miðað við þær tölur sem ég hef séð, lítil efnahagsleg áhrif. Á sama tíma hafa margir virtir hagfræðingar á borð við Gylfa Magnússon, Gunnar Tómasson og Ólaf Margeirsson haldið því fram að þetta sé stórhættuleg aðgerð. Gunnar og Ólafur benda á eftirfarandi í bréfi sínu til nefndarmanna frá 17. desember sl., með leyfi forseta:

„Þessi aukning peningamagns í umferð getur leitt til óstöðugleika og verðbólgu á eigna- og vörumarkaði. Þessi umrædd 108,5 milljarða króna greiðsla, sem fjármögnuð skal verða með stöðugleikaframlagi föllnu bankanna til ríkissjóðs, vinnur því beinlínis gegn markmiðum stöðugleikaframlagsins sjálfs sem var að stuðla að stöðugleika á innlendum eigna- og vörumarkaði. Bent er á að um er að ræða tæplega 7% aukningu peningamagns í umferð. Bjartsýnt væri að gera ráð fyrir að slík aukning peningamagns í umferð hefði ekki afleiðingar.“

Seðlabankinn segir aftur á móti að þetta muni engu að síður hafa óveruleg áhrif og rökstyður það með því að aðeins séu um 25 milljarðar kr. í raunverulegum peningum sem eru fluttir til. Eftirstöðvarnar komi í formi skuldabréfa og annarra eigna sem komu inn í gegnum þessi stöðugleikaframlög. Það er ekki ljóst hvaða eignir þetta eru og því er mjög hæpið að áætla efnahagsleg áhrif af tilfærslu þeirra með þessum hætti.

Hvernig sem horft er á málið hljóðar það upp á töluverða stækkun á nú þegar afar stóru lífeyrissjóðakerfi með tilheyrandi áhættuþáttum fyrir lífeyriskerfið í heild sinni.

Ef fjármagna á stærstan hluta þessa framlags með öðrum eignum en peningum kemur upp annað vandamál. Það er gríðarlega mikilvægt að fram komi með hvaða hætti þessar eignir voru valdar, hverjar þær eru og hversu mikils virði þær eru hver um sig. Það er hættulegt að færa til svona svakalegt magn eigna í einu skrefi vegna þess að það er algerlega ógerlegt að staðfesta að ekki sé um að ræða einhverjar óeðlilegar tilfærslur. Án þess að ég sé að herma upp á neinn einhvern illan vilja eða glæpsamlega tilburði, herra forseti, finnst mér nauðsynlegt að við tökum af allan vafa varðandi staðreyndir málsins þegar svona mál liggur fyrir. Svo hafa verið færð fyrir því rök að umrædd aðgerð muni að öllum líkindum ekki duga til að laga þann vanda sem orðinn er innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og enn fremur að vandinn sé mun víðtækari í lífeyrissjóðakerfinu almennt. Fjáraustur í kerfið núna er ekki líklegur til að skila neinum árangri til lengri tíma. Verðmiði upp á á annað hundrað milljarða kr. til þess að kaupa sér tíma í þessu máli er frekar hár.

Í fyrrnefndu bréfi Gunnars Tómassonar og Ólafs Margeirssonar segir, með leyfi forseta:

„Vandamál íslenska lífeyriskerfisins er ekki og verður aldrei skortur á peningum, hvort sem um 100% gegnumstreymis- eða sjóðsöfnunarkerfi er að ræða, heldur, líkt og er vandamál allra, skortur á raunverulegum verðmætum og framleiðslu. 108,5 milljarða króna framlag ríkissjóðs til sérstaks lífeyrisaukasjóðs bætir ekki úr þeim skorti, hvorki nú né í framtíðinni. Framlagið er því tilgangslaust með öllu sé markmiðið að tryggja lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og kaupmátt þeirra.“

Það liggur því beinna við að leggja áherslu á heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins, eins og ég talaði hér fyrir í síðustu viku, með það að markmiði að tryggja að hegðun þess og umfang sé nær því sem þurfa þykir til að geta tryggt framtíðarlífeyrisréttindi allra í reynd, án þess að reglulegra inngripa sé þörf af hálfu ríkisins.

Herra forseti. Af frumvarpinu getur leitt töluverða skerðingu á áunnum réttindum. Það er alveg óljóst hvort það er í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Ýmsar skoðanir voru á því innan nefndarinnar. Sumir sögðu að það væri í lagi, aðrir sögðu það ekki í lagi. Í rauninni er óljóst hvort það er siðferðislega réttlætanlegt að skerða lífeyrisréttindi fólks óháð því hvort það er samrýmanlegt stjórnarskránni eður ei. Í því felst í rauninni meginvandi lífeyrissjóðakerfisins.

Það er einnig óljóst hvort heimilt sé til að skerða lífeyrisréttindi með þessum hætti án þess að til allsherjaratkvæðagreiðslu komi í viðkomandi stéttarfélögum, líkt og fjallað var um í lögfræðiáliti Gísla Tryggvasonar lögmanns um málið frá 1. desember sl. Þar kemur hann inn á þann veigamikla punkt að það er ekki bara ákvörðun Alþingis heldur er það að miklu leyti bundið í samningum launþega við vinnuveitendur sína. Þarna er um að ræða töluverð inngrip inn í kjaramál þeirra af hálfu Alþingis ef ekki er byggt á samkomulagi.

Þá kemur hin spurningin, herra forseti. Það var samkomulag. Frumvarpið byggist á forsendum samkomulags stjórnvalda og heildarsamtaka á opinberum vinnumarkaði frá 19. september sl., eins og komið hefur fram. Þar er umdeilt hvort frumvarpið samræmist samkomulaginu. Eðli málsins samkvæmt er óeðlilegt að Alþingi og ráðuneytið byggi vinnu sína eingöngu á túlkun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á samkomulaginu en líti fram hjá jafn rétthárri túlkun annarra aðila samkomulagsins.

Ekki hjálpar að mörg aðildarfélög aðila að samkomulaginu virðast hafa ekki gefið heimild til þess að gera slíkt samkomulag, eins og komið hefur fram í máli sumra minni aðildarfélaganna og umsögnum þeirra.

Herra forseti. Svo kemur að öðru vandamáli sem ég hef miklar áhyggjur af. Það er hugmyndin um að leiðrétta launakjör á sex til tíu árum. Fyrir frumvarpinu eru þau rök að með skerðingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna sé hægt að ganga skref í átt að því að jafna launakjör opinberra starfsmanna við það sem almennt gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Það er mjög fínt. Það er góð nálgun og gott markmið. En þótt jöfnun kjara milli almenns og opinbers vinnumarkaðar sé bæði jákvæð og eftirsóknarverð er ekki með nokkru móti augljóst að seinna skrefið verði stigið. Gylfi Magnússon bendir á eftirfarandi í umsögn sinni um frumvarpið frá 15. desember sl., með leyfi forseta:

„Á móti þessu koma ekkert nema loðin fyrirheit um að laun í opinbera geiranum verði hækkuð til samræmis við almenna vinnumarkaðinn á tíu árum. Slíkt loforð er í eðli sínu haldlaust og fjölmörg fordæmi fyrir því sama hversu góðan hug loforðsgjafinn kann að hafa þegar loforðið er gefið.“

Vert er að athuga að með samþykkt frumvarpsins verður til klemma þar sem hægt verður að rökstyðja afturhald launa á almennum vinnumarkaði með tilvísun til þess stöðugleika sem skapaður hefur verið með því að jafna lífeyrisréttindin, og að þangað til búið sé að jafna launakjör opinberra starfsmanna á móti því sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði megi almennur vinnumarkaður ekki hækka að neinu marki. Þessi rök gætu verið notuð. Það kæmi mér alls ekki á óvart ef þau yrðu notuð til þess að réttlæta inngrip Alþingis inn í kjarabaráttu t.d. sjómanna, en það er algjörlega óásættanlegt að gefa kost á slíkri réttlætingu, enda á Alþingi ekki að vera með stöðug inngrip inn í kjaradeilur almenna vinnumarkaðarins.

Herra forseti. Samkvæmt frumvarpinu fellur réttur sjóðfélaga til lífeyrisauka almennt niður falli iðgjaldagreiðslur þeirra niður til lengri tíma en 12 mánaða. Af því leiðir nokkuð slæmt vandamál, þ.e. að opinber starfsmaður, sem hefur þurft að sætta sig við jafna ávinnslu réttinda fyrri hluta starfsævinnar, getur ekki gert meira en árs hlé frá störfum hjá hinu opinbera vilji hann ekki glata réttindunum. Það skiptir rosalega miklu máli vegna þess að þarna er hreinlega verið að koma í veg fyrir að fólk sem vinnur hjá hinu opinbera hafi frelsi til þess að fara út á hinn almenna vinnumarkað og ganga fram og til baka eftir því sem það fái betri kjör hverju sinni og jafnvel eftir því sem áhugi og annað lætur til án þess að verða komið í meiri háttar vandræði með lífeyrismál sín. Það má segja að í raun sé viðkomandi starfsmaður kominn í vistarband út starfsævina. Ef hann fer frá hinu opinbera er verið að refsa honum. Það er sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að eitt af markmiðum frumvarpsins var að auðvelda flæði starfsfólks milli hins opinbera og almenna markaðarins.

Svo hefur verið talað um að allir séu algjörlega upplýstir í þessu máli. Það er alls ekki rétt. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson sagði á sínum tíma þegar málið var til umræðu á 145. þingi, með leyfi forseta:

„Jú, ég get alveg deilt því að ég hefði viljað hafa rýmri tíma og meira svigrúm, lengri umsagnarfrest o.s.frv., en ég tel samt að við höfum skyldu til að láta reyna á það til fulls hvort ekki geti myndast samstaða á þinginu. Það sem færir mér bjartsýni í brjóst hvað það varðar er sú staðreynd að allir þeir sem hagsmuni eiga undir eru aðilar að samkomulaginu og hafa kynnt sér málið nú þegar í þaula.“

Svo heldur hann áfram:

„Þetta mundi allt saman horfa öðruvísi við ef við værum að skella hér fram eftir árangurslausa tilraun til að ná samningum frumvarpi þar sem við segðum: Það hefur ekki tekist neitt samkomulag en þá ætlum við að höggva á hnútinn með þessu frumvarpi.“

Í þessum orðum felst ákveðið vandamál. Það er búið að búa til rosalega mikla tímapressu á þinginu við að vinna þetta mál. Það er stutt með þeim rökum annars vegar að allir aðilar hafi kynnt sér málið í þaula og hins vegar að allir séu aðilar. Staðreyndin er sú að í ansi mörgum umsögnum kemur fram að menn hafi ekki haft tíma til þess að skoða málið. Þegar sá tími hefur gefist hjá sumum félögum, þá kannski þeim sem stærri eru, hafa menn áttað sig á því að þetta er bara ekki í samræmi við það sem rætt hafði verið. Þá leggjast öll samtök hagsmunaaðila náttúrlega gegn þessu. Segja má að næstum 100 þús. starfsmenn hins opinbera, ég hef svo sem ekki nákvæmari tölur en það, leggist gegn þessu máli.

Ef sú samstaða sem gerði málið framkvæmanlegt þá er ekki raunveruleg samstaða og ef menn sem ættu að vera aðilar að málinu hafa ekki haft tækifæri til þess að kynna sér málið í þaula áður en það er tekið hér til afgreiðslu eru forsendur þess farnar. Það nær ekki að uppfylla markmið okkar.

Með þeim orðum, herra forseti, legg ég til að málinu verði hafnað, að það verði ekki samþykkt.