146. löggjafarþing — 8. fundur,  20. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[17:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum ekki farið í þessa vinnu í sjálfu sér í tengslum við þetta. Hér er verið að jafna lífeyrisréttindi. Vandamálið er að menn gera alltaf ráð fyrir því fyrir fram að undir öllum kringumstæðum séu opinberir starfsmenn á lakari kjörum en almenni markaðurinn. Ég held að það sé bara mikill misskilningur þegar allt er tekið til og farið betur yfir. Þegar við erum að meta viðmiðunarstéttir höfum við enga viðmiðunarstétt með þeim sem vinnur ekki á almennum markaði vegna þess að þær stéttir eru ekki til þannig að eini markaðurinn er hinn opinberi.

Við getum ekki, eins og margir vilja hér og kom fram á nefndarfundi, tekið bara einhvern hóp á almennum vinnumarkaði sem er með jafn langt nám og miðað við það, til að mynda með háskólamenn. Menn mega ekki gleyma að vinnumarkaðurinn er markaður, þess vegna heitir hann vinnumarkaður. Þar ræður oft framboð og eftirspurn og þá geta opinberir starfsmenn ekki sagt: Hér er ákveðin hækkun og þá á ég að fá hana. Það gerist ekki svona. Það er auðvitað langeðlilegast að við klárum þetta frumvarp, jöfnum þessi lífeyrisréttindi og metum svo hvar og hvort yfir höfuð hallar á opinbera starfsmenn og þá hvaða hópa hugsanlega. Það þarf ekkert að vera sérstaklega flókið en ég veit að í raun eru mismunandi skoðanir um það hvernig á að fara í þetta. Ég hræðist það mjög í framtíðinni hvernig menn ætla að leysa þann vanda.