146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er enn eitt málið sem við erum að vinna í of miklu tímahraki rétt fyrir jól. Þetta er grundvallarmál sem ætti að vera sátt um. Flestir eru sammála um markmiðið en framkvæmdin hefur gengið eitthvað illa hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þannig að þeir aðilar sem eiga hlut að samkomulaginu á móti ríkinu eru flestir, ef ekki allir, að verða ósáttir, benda á stóra vankanta á málinu, að það geti mögulega brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti, og hvetja okkur til að keyra málið ekki í gegn í flýti. Ég held að það sé sjálfsagt að verða við því og ég mun ekki geta stutt þetta mál.