146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er þó nokkuð mikil einföldun á þessu máli að halda því fram að það sé sjálfsagt og eðlilegt að allir verði sammála um það. Það er ekkert sjálfsagt og eðlilegt. Það voru stórkostleg tíðindi þegar gert var samkomulag við heildarsamtök opinberra félaga.

Þannig er mál með vexti að ekki hafa allir verið á eitt sáttir um þetta mál frá upphafi. Í gegnum allt ferlið hafa komið athugasemdir. Margir opinberir starfsmenn vilja ekki neina breytingu af neinu tagi að bakábyrgð ríkisins verði afnumin. Þeir eru til. Þeir hafa birst í þessari meðferð málsins hér á þingi. Þau félög hafa haft uppi hávær mótmæli. Þetta var viðbúið. En það er allt önnur umræða en sú hvort frumvarpið sé í samræmi við samkomulagið.

Það er rangt þegar því er haldið fram að samkomulagið sem undirritað var í haust hafi gengið út frá því að bakábyrgð ríkisins myndi lifa fyrir alla (Forseti hringir.) opinbera starfsmenn þar til þeir lykju störfum. Það er rangt. Það er grundvallarforsenda sem gengið var út frá allan tímann að bakábyrgðin yrði afnumin.