146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni meiri hluta fyrir framsöguna og taka undir þakkir hv. þingmanns til nefndarinnar fyrir störf hennar. Þetta hafa verið mjög fróðlegar umræður og gagnlegar. Ég vil einnig fagna því sérstaklega sem er fram komið í b-lið breytingartillögunnar frá meiri hluta nefndarinnar um að kjararáð skuli í störfum sínum fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á sem og ákvæðum upplýsingalaga, sem hefur nú verið áréttað og er þá alla vega tryggt með þessum lögum. Ég fagna því mjög. Ég gleðst yfir því að það sé á þessum lista.

Ég hef enn þá nokkrar athugasemdir við frumvarpið, þ.e. breytingartillögur. Þær snúa einnig að auknu gagnsæi í störfum nefndarinnar. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að nú gilda upplýsingalög um störf nefndarinnar þannig að almenningur og fjölmiðlar og aðrir þeir sem láta sig málið varða hafa núna óskoraðan rétt til þess að leita eftir upplýsingum hjá kjararáði, rétt sem hefur ekki verið skýr í lögum fram að þessu. Ég fagna því að þetta ákvæði sé komið inn.

Hvað varðar stjórnsýslulögin er ég persónulega einkar glöð yfir því þar sem ég sendi fyrir hönd þingflokks Pírata upplýsingabeiðni sem ég taldi geta fallið undir stjórnsýslulög til kjararáðs án þess að hafa fengið svar enn þá. Tel ég mig núna betur upplýsta um rétt minn fyrst meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar er sammála mér um að kjararáð skuli fylgja stjórnsýslulögum eftir því sem við á. Það er fagnaðarefni.

Mér þykir hins vegar undarlegt í ljósi þess að markmiðið með þessu frumvarpi er að auka gagnsæi gagnvart kjararáði að ekki hafi fengist betri hljómgrunnur fyrir því að bæta inn ákvæði þar um að kjararáð skuli birta fundargerðir sínar opinberlega og að kjararáði beri að halda hagsmunaskráningu og birta hana opinberlega. Minnihlutaálitið sem ég legg fram hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu umræðu, m.a. vegna ýmissa ábendinga og umræðna sem hafa farið fram, bæði innan nefndar og utan, og ber það þess merki. Fyrst ber að líta til fyrri breytingartillögunnar en þar þótti ég vera að biðja um svokallaða mörgæs með kröfum mínum um að í kjararáði sætu einstaklingar með ákveðna menntun og hæfi sem ég hafði tilgreint sérstaklega hvert væri. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þá ábendingu og hef ég breytt breytingartillögunni að því marki að hún rúmar frekar stærri mengi í þjóðfélaginu um hverjir geta setið í þessu ágæta ráði. Því mælum við með því að ráðsmenn skuli hafa menntun og/eða reynslu við hæfi. Er það í raun og veru eitthvað sem ég tel að margir í þingsal gætu verið ásáttir um að kjararáðsmenn ættu að hafa, menntun og reynslu sem nýtist þeim í starfi. Það er venjulega æskilegt þegar skipað er í ráð og nefndir.

Eins hafa mér borist ábendingar um að ekki væri nógu skýrt hvernig kjararáði væri ætlað að birta hagsmunaskráningu sína. Ég hef skýrt það ákvæði. Það er nú á þessa leið, með leyfi forseta:

„Ráðsmenn skulu birta hagsmunaskráningu sína opinberlega og með aðgengilegum hætti og setja sér reglur þar um.“

Ég tek fram í nefndarálitinu, minnihlutaálitinu, að hægt væri að nota hagsmunaskráningu Hæstaréttar til viðmiðunar um hvernig slík hagsmunaskráning gæti litið út, þótt aðstæður þessara tveggja aðila séu ekki að öllu leyti sambærilegar þá megi vissulega hafa hliðsjón af þeim. Það er því í álitinu.

Loks held ég að það hljóti að vera töluverður hljómgrunnur hér inni eða víða í þjóðfélaginu fyrir því að fundargerðir kjararáðs skuli birtar opinberlega og með aðgengilegum hætti. Mér finnst sjálfsagt mál að hægt sé að fylgjast með því sem er á dagskrá kjararáðs hverju sinni og störfum ráðsins almennt og yfirleitt, hvenær það fundar og hvernig fundargerðir þess líta út yfirleitt.

Virðulegur forseti. Breytingartillögur mínar ganga í raun og veru út á að bæta enn frekar það gagnsæi sem við erum öll svo dugleg að tala um þegar kemur að kjararáði. Það er einfaldlega með því að gera kröfu um að við höfum sem bestar upplýsingar um þá sem starfa í þessu ráði og ákvarða okkur og öðrum æðstu embættismönnum þjóðarinnar laun, að við vitum hvaða hagsmuna ráðið hefur að gæta, að við vitum hvernig fundir þess líta almennt út, alla vega beinagrindin, og að við höfum einhvers konar ábyrgðarklausu í lögum um að þeir sem skipa ráðið skuli hafa menntun og/eða reynslu sem nýtist þeim í starfi. Þetta finnst mér allt vera mikilvægar breytingartillögur og því legg ég til að þær verði samþykktar.

Ég vil mæla enn og aftur með því að kjararáð fylgi ákvæðum stjórnsýslulaga eftir því sem við á og ákvæðum upplýsingalaga, af því að mér finnst umræðan sem hefur farið fram svolítið merkileg.

Að lokum langar mig aðeins að tala um það að mér finnst allt of hratt farið í þessa atkvæðagreiðslu. Ég sé ekki forsendurnar fyrir því að við verðum að klára þetta mál fyrir áramót. Meðal þeirra ástæðna sem mér finnst fyrir því að við afgreiðum þetta mál ekki fyrir áramót er að við vorum í ákveðinni tilvistarumræðu um kjararáð í nefndinni, kjararáð var hvorki fugl né fiskur og ekki er einhugur um hvort kjararáð sé framkvæmdarvaldið, hvort það sé eitthvað allt annað, sérstakt snjókorn eins menn tala stundum um, hvort það sé hluti af löggjafarvaldinu eða einhvers konar dómstóll og þá hvernig dómstóll. Mér finnst sérstakt ef svarið við þeirri grundvallarspurningu hvað kjararáð er liggur ekki ljóst fyrir að við séum að ákveða hér ný heildarlög um kjararáð. Ég fæ víst ekki ráðið öllu, frú forseti, og þetta mál skal afgreiðast. Ég legg til að það verði afgreitt með breytingartillögum minni hlutans og alveg sérstaklega með b-lið breytingartillögu meiri hlutans.