146. löggjafarþing — 11. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við Vinstri græn leggjum hér ýmsar tillögur til aukinnar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð sem við teljum þjóna þríþættu markmiði; í fyrsta lagi því að tryggja fulla fjármögnun þeirra útgjaldaverkefna sem hv. þingheimur hefur haft mikinn áhuga á að sinna og auka afgang ríkissjóðs um leið þannig að það verði gert með ábyrgum hætti. Tillögurnar hafa líka hagstjórnarlegt gildi í ljósi þess að þær munu vafalaust þjóna þeim tilgangi að slá á þá þenslu, sem ég veit að hv. þingmenn hljóta að hafa áhyggjur af í ljósi stöðunnar. En þetta eru líka réttlætistillögur því að þær snúast um að auka jöfnuð í samfélaginu og nýta til þess skattkerfið með framsæknum hætti. Ég hvet hv. þingmenn því til að samþykkja þessar breytingartillögur.

Inni á milli eru líka aðrar breytingartillögur sem snúast um lýðheilsumarkmið og hér er líka lagt til að tekin verði upp komugjöld, sem ég veit að margir stjórnmálaflokkar hafa talað fyrir á undanförnum misserum.